132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[20:26]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Í dag hefur farið hérna fram ágæt umræða um þetta stjórnarfrumvarp sem heilbrigðisráðherra hóf umræðuna á að mæla fyrir. Ég tel að umræðan sé mjög góð og málefnaleg og hún er góður undirbúningur undir vinnu heilbrigðisnefndar sem ég geri ráð fyrir að þessu máli verði vísað til að umræðunni hér lokinni. Það má segja að þegar hér er komið umræðunni dragi enginn í efa skaðsemi óbeinna reykinga. Það urðu einhver áhöld hér fyrri hluta umræðunnar í dag um tilteknar heimildir og tilteknar rannsóknir, hvort þær hefðu verið túlkaðar rétt eða rétt frá þeim sagt í greinargerð með frumvarpinu. En þegar upp er staðið dregur enginn í efa skaðsemi óbeinna reykinga.

Í annan stað má segja að ákveðinn ágreiningur eða skoðanamunur hafi verið í þessari umræðu á milli þingmanna um það hvort löggjafinn sé að ganga of langt gagnvart sjálfsákvörðunarrétti þegnanna. Einhverjir hafa hent á lofti hvort bannið fortakslausa brjóti hugsanlega í bága við stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi og eignarrétt. Ég ætla ekki að eyða orðum á hvorugt þessara. Þessi umræða um stjórnarskrárvarinn rétt, atvinnufrelsið og eignarréttinn, dregur dám af og minnir á umræðuna sem varð hér 2002 þegar ákveðið var með tóbaksvarnalögunum sem við settum þá að banna að auglýsa tóbak. Þá héldu því einhverjir fram að það færi í bága við stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi. Ég held að enginn haldi því fram nú eða leggi nokkuð upp úr því. En þar toguðust vissulega á hagsmunir forvarnanna og svo hagsmunir tóbaksframleiðenda og seljenda hins vegar. Ég tel að mikil sátt ríki nú um þetta auglýsingabann og menn séu sammála um að það hafi verið rétt að breyta lögunum í þá veru.

Ég ætla heldur ekki að eyða orðum í það að færa rök fyrir því út frá vinnuverndarsjónarmiðum og út frá lýðheilsusjónarmiðum eða heilsuvernd, að það þurfi að takmarka reykingar á veitingastöðum. Ég held að enginn efist, eins og ég sagði, um skaðsemina og ég held að fyrir því hafi verið færð fullnægjandi rök, m.a. með rannsóknum sem menn hafa vísað til um það. Í mínum huga er meginmálið það sem var lögfest 2002 þar sem sagði að sérhver ætti rétt á því að þurfa ekki að anda að sér tóbaksreyk. Þetta var meginreglan sem við settum í lögin 2002 og eina undantekningin frá þeirri meginreglu laut að veitinga- og skemmtistöðum og starfsmönnum þar.

Frumvarpið sem við ræðum núna gengur út á það að fella niður þessa undantekningu og frumvarpið skilgreinir þjónusturými m.a. í þeim tilgangi. Hugsunin er þá sú að starfsmenn sem vinna í þjónusturými njóti sömu verndar og aðrir og sama réttar til reyklauss umhverfis.

Einnig hafa verið ræddar hérna í dag vægari leiðir, eins og sú sem við fórum 2002 því þá var vissulega uppi umræða um fortakslaust bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum. Í greinargerð með frumvarpinu núna kemur fram, og er það byggt á vettvangskönnun sem gerð var, að lögin eins og við gengum frá þeim 2002, þar sem gert er ráð fyrir að meiri hluti veitingarýmis sé reyklaus og loftræsting sé fullnægjandi, hafa ekki skilað markmiði sínu. Vegna þess að lögunum hefur ekki verið fylgt. Það var eitt af því sem við veltum fyrir okkur við lagasetninguna 2002 hvernig ætti að fylgja þessu eftir því það lá alveg fyrir að sum veitingahús voru betur í stakk búin, eins og þau voru útbúin og hönnuð, til að fara að lögunum en önnur. Við veltum því fyrir okkur hversu heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna væru megnug.

Þegar ég hlýddi á umræðuna áðan reyndi ég að rifja upp hvort við hefðum aldrei rætt um nein viðurlög á sínum tíma, sem er alveg það sama og ég velti fyrir mér núna, þ.e. hvort þetta frumvarp þyrfti ekki að geyma einhver viðurlög við brotum, sem er svo aðeins annar handleggur.

Vægari leiðin hefur því verið reynd en kannski má segja sem svo að henni hafi ekki verið fylgt nægilega eftir. Ekki þá með viðeigandi ákvæðum um lokanir eða öðrum viðurlögum til þeirra sem höfðu ekki fullnægt lögunum eins og þau voru. Þá er spurningin sú: Hvað ætlum við að gera út frá þeim sjónarmiðum að starfsmenn á veitinga- og gistihúsum eigi sama rétt á reykleysi og aðrir?

Það sem aðalágreiningurinn er um, því menn tala í þessu samhengi um fortakslaust bann sem menn vilji meina að 1. gr. feli í sér, er kannski hvort megi þá á vissan hátt ganga skemur en þetta án þess að verið sé að brjóta á rétti þeirra sem starfa á veitingastöðum, án þess að vinna gegn lýðheilsusjónarmiðum og viðurkenna að óbeinar reykingar hafa skaðleg áhrif, og þá hugsanlega með þeirri leið að heimilað verði einhvers konar afdrep eða reykherbergi. Hv. þingmenn hafa, og síðast hv. þm. Birgir Ármannsson, fært ágæt rök fyrir að sú leið verði farin án þess að verið sé að vinna gegn vinnuverndarsjónarmiðum.

Vegna þessarar umræðu finnst mér rétt að rifja aðeins upp umræðuna sem fór hérna fram á sínum tíma þegar við settum lögin 2002 og ákváðum a.m.k. að prófa þá leið að leggja svo fyrir að meira en helmingur rýmis á veitingastöðum skyldi vera reyklaus og loftræstingin góð. Þá fór töluverð umræða fram um hvort ætti að vera skilyrðislaust bann, t.d. á opinberum stofnunum, við reykingum starfsmanna. Niðurstaða heilbrigðisnefndar á þeim tíma, og þá er ég að tala um 10. gr. núgildandi laga, varð sú að ekki væru rök til þess því það sem mundi þá fylgja var það sem við höfum víða séð erlendis, að starfsmenn stæðu utan dyra, húktu þar í hvers konar veðrum og það hefði a.m.k. ekki forvarnagildi. Á sama tíma og við vorum að banna að auglýsa reykingar fannst okkur óeðlilegt að bjóða upp á að starfsmenn stæðu utan dyra og væru í sjálfu sér auglýsing fyrir tóbak. Þó svo að frumvarpið, eins og það kom frá ráðuneytinu á sínum tíma, gerði ráð fyrir að heimild til forstöðumanna opinberra stofnana til að vera með einhvers konar afdrep yrði felld niður varð það niðurstaða heilbrigðisnefndar 2002 að halda þeirri heimild inni. En við vorum nú ekki svo flott á því að tala um sérstakt reykherbergi, heldur töluðum við um afdrep. Í 10. gr. laganna eins og þau eru núna er talað um að tóbaksreykingar séu með öllu óheimilaðar og síðan er talið upp sem eðlilegt er: grunnskólar, framhaldsskólar, heilsugæslustöðvar, sjúkrahús o.fl. En síðan segir, með leyfi forseta:

„Forstöðumenn allra annarra opinberra stofnana en um getur í 1. mgr. skulu í samráði við starfsfólk gera áætlun um bann við reykingum innan viðkomandi stofnunar sem kemur til framkvæmda eigi síðar en fyrir lok ársins 2002.“

Og síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Innan sérhverrar stofnunar skal þó heimilt að gera ráð fyrir afdrepi þar sem reykingar eru heimilaðar.“

Ég velti því fyrir mér þegar ég las frumvarpið sem við nú ræðum hvers vegna ekki væri lagt til í frumvarpinu frá ráðuneytinu út frá sömu sjónarmiðum, vinnuverndarsjónarmiðum, að fella niður þessa undantekningu og þessa heimild sem forstöðumenn stofnana hafa.

Svona var umræðan á þeim tíma og þetta varð niðurstaðan í heilbrigðisnefnd út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef nefnt að reynslan hefur sýnt að þar sem bannið er fortakslaust standa starfsmenn gjarnan utan dyra.

Ekki eru nokkur rök til að stilla þessu máli upp þannig að það séu annars vegar þeir sem ekki reykja og eru á móti reykingum og hins vegar þeir sem séu á andstæðri skoðun með tilliti til þessa frumvarps. Ég held að segja megi að um það bil fimmtungur þjóðarinnar reyki enn þá þó að hlutfallið minnki stöðugt, þeim fækki stöðugt sem reykja. En það er alveg óþarfi að stilla þessu upp sem andstæðum hópum vegna þess að ég leyfi mér að fullyrða að margir þeir sem reykja kjósa eftir sem áður að geta notið matar og drykkjar á veitingastöðum í reyklausu umhverfi. Ég held að við ættum að halda því opnu út frá þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið færð fram í dag — ég tek fram að ég styð frumvarpið og bannið við því að reykt sé á veitinga- og skemmtistöðum — að eðlilegt sé út frá þeim sjónarmiðum sem haldið hefur verið á lofti að huga að því innan heilbrigðisnefndar, líkt og menn hafa gert á Ítalíu og í Svíþjóð, að heimila þeim sem reka slíka staði að vera með einhvers konar afdrep þar sem engin þjónusta er veitt. Þar með er ekki verið að brjóta á rétti starfsmanna.

Þetta var fyrirvari minn við þingmannafrumvarpið sem ég var meðflutningsmaður á og var lagt fram á síðasta þingi, ég vildi að þessi leið fengi a.m.k. umræðu í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd.

Vegna umræðu sem var fyrr í dag og vegna kostnaðarumsagnar fjármálaráðuneytisins þar sem segir að ekki verði séð að þetta frumvarp hafi nein áhrif á ríkissjóð finnst mér rétt að geta þess að auðvitað er fyrirsjáanlegur samdráttur ef frumvarpið nær öðrum markmiðum sínum, sem má skilja samkvæmt greinargerð að séu þau að draga úr reykingum, þá hljótum við að ganga út frá því að frumvarpið leiði til samdráttar á tekjum ríkissjóðs. En á sama hátt hljótum við líka, út frá því sem segir í greinargerð um skaðleg áhrif reykinga bæði beinna og óbeinna, að gera ráð fyrir að þetta frumvarp til lengri tíma litið geti valdið stórkostlegum samdrætti í útgjöldum til heilbrigðismála. Það hljótum við að styðja. Mér finnst það svolítið klént í umsögn fjármálaráðuneytisins að halda því á lofti að þetta hafi svo til engin áhrif.

Því var haldið fram fyrr í umræðunni í dag að sú leið sem Svíar fóru, að leyfa tiltekin reykherbergi eða einhvers konar afdrep, að veitingamenn þar í landi hefðu verið í andstöðu við það og teldu ekki góða reynslu af þeirri heimild sem þeir höfðu í lögunum vegna þess að þeir töldu það skekkja samkeppnisstöðu sína. Þetta finnst mér gamalkunnug rök. Við heyrðum þetta líka þegar við breyttum lögunum 2002 að sumir veitingamenn ættu betra með en aðrir að breyta húsnæðinu þannig að þeir uppfylltu skilyrði laganna. Síðan gekk það eftir að menn virtu þau lög ekki sem skyldi. En það er kannski vert í þessu tilfelli líka að árétta að samkeppnisstaða veitinga- og skemmtistaða er náttúrlega mismunandi á mörgum öðrum forsendum en beinlínis þessari. Menn þurfa að kosta mörgu til í rekstri sínum að öðru leyti til að styrkja samkeppnisstöðu sína. Mér finnst þetta alls engin rök.

Að lokum, herra forseti, það sem hér er vísað í, stuðning Samtaka ferðaþjónustunnar og stuðning allra heilbrigðisstétta við þetta frumvarp, þá vil ég árétta að ég er fullur stuðningsmaður þessa fortakslausa banns, en ef þetta sjónarmið, þ.e. að leyfa einhvers konar afdrep, að gættum vinnuverndarsjónarmiðum, væri borið undir heilbrigðisstéttirnar og þau títtnefndu samtök í umræðunni, efa ég fyrir fram að þeir aðilar mundu setja sig gegn því. Enda er það vinnuverndin og hættan á óbeinum reykingum sem ræður afstöðu þeirra meira og minna.

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir og eðlilega að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar. Umræðan í dag gefur vissulega tilefni til að nefndin fari vel yfir málið og fái á sinn fund alla þá aðila sem munu skila umsögnum og þau hagsmunasamtök og forsvarsmenn heilbrigðisstétta sem vísað hefur verið til. Ég held að sú umræða sem verið hefur í dag sé góður grundvöllur undir þá vinnu sem fram undan er í heilbrigðisnefnd.