132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[20:43]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er eitt atriði sem ég vil gjarnan koma að í síðari ræðu minni við umræðuna sem snertir það bann sem hér er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Það varðar stjórnarskrárþátt málsins. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að hafa í huga að í frumvarpinu reynir á ákveðin ákvæði stjórnarskrárinnar. Ljóst er að með því banni sem hér um ræðir er verið að skerða réttindi sem gert er ráð fyrir í mikilvægum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Eins og við vitum við túlkun stjórnarskrárákvæða getur slík skerðing verið réttlætanleg undir ákveðnum kringumstæðum, en þegar metið er hvort skerðingin er réttlætanleg þarf að fara yfir það sjónarmið, hvort beint samhengi er milli þeirrar reglu, þeirrar bannreglu í þessu tilviki sem gert er ráð fyrir og þeirra markmiða sem að er stefnt. Í þessu tilviki er hugsanlegt að fortakslaust bann yrði metið réttlætanlegt á grundvelli heilsufarssjónarmiða en það er ekki sjálfgefið, það er ekki nóg að segja að þetta sé á grundvelli heilbrigðissjónarmiða, það þarf að meta hvort bannið er til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt og hvort gengið er lengra en nauðsynlegt er til að ná viðkomandi markmiði. Þetta er afar mikilvægt að skoða.

Ég bið hv. þingmenn að velta því fyrir sér, af því að ég nefndi hér í fyrri ræðu minni dæmið um reykingaklúbb, að væri ég ekki í þeim sporum sjálfur að vera þingmaður hér á hinu háa Alþingi heldur vildi ég reyna fyrir mér í atvinnurekstri, mundi hugsanlega kaupa eða leigja húsnæði sem ég hefði fullan yfirráðarétt yfir lögum samkvæmt, vildi stofna þar stað eða klúbb þar sem reykingar væru heimilar, þá mundi reyna á það stjórnarskrárákvæði sem kveður á um yfirráðarétt minn yfir þessum stað, yfir hvort reglan, bannreglan væri réttlætanleg í því ljósi að það væri verið að skerða eignarrétt minn yfir viðkomandi eign. Það er alveg klárt að það mundi reyna á það. Ég ætla ekki að segja fyrir um hver niðurstaðan yrði en það mundi reyna á það og er nauðsynlegt að hafa í huga við þessa umræðu.

Í annan stað gætum við í þessu ímyndaða dæmi hugsað okkur að ég ætlaði sjálfur að hafa af því atvinnu að reka þessa starfsemi, ætlaði að hafa af því tekjur og vinna við það frá morgni til kvölds, til að framfleyta mér og fjölskyldu minni. Bannið, eins og lagt er fram í frumvarpinu, mundi skerða þennan rétt minn, beinlínis koma í veg fyrir að ég gæti rekið atvinnustarfsemi í þessu tilviki og haft af því atvinnu. Ég er ekki að segja að stjórnarskráin kæmi í veg fyrir að þetta bann væri talið gilt en það mundi reyna á það.

Í þriðja lagi gætum við ímyndað okkur að ég heimilaði klúbbi áhugamanna um vindlareykingar að hafa aðsetur í þessu húsi, koma þar saman í þeim löglega tilgangi að reykja, af því að eins og við höfum nefnt áður við þessa umræðu er ekki bannað að reykja í landinu. Þeir kæmu þarna saman í löglegum tilgangi, hefðu um þetta félag. Lögin, eins og þau eru sett fram hér, kæmu í veg fyrir þessa starfsemi þeirra þannig að það mundi reyna á félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Af því að ég nefni stjórnarskrána finnst mér rétt í tilefni af annars ágætri ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz hér áðan, að geta þess að ákvæði tóbaksvarnalaga frá árinu 2002, sem takmarkar umfjöllun í fjölmiðlum um tóbak, gengur harla langt að mínu mati á tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, en það er önnur saga. Bara til upprifjunar felur ákvæðið í sér miklu meira en auglýsingabann, miklu meira. Auglýsingabannið hefur verið hér í gildi í 20 ár, en núgildandi ákvæði sem er frá 2002 hefur ekki reynt á fyrir dómstólum. Það kveður á um að bönnuð sé hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra. Ég held að á engu sviði íslenskrar löggjafar sé gengið nær tjáningarfrelsinu en í þessu, en á þetta hefur ekki reynt fyrir dómstólum.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að hún hafi verið ágæt og málefnaleg og leitt fram ýmis sjónarmið í málinu sem mikilvægt er að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd taki mið af við umfjöllun sína um málið. Ég vil ekki síst þakka fyrir ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz í málinu sem mér fannst nálgast málið yfirvegað og gefa vonir um að þegar fjallað verður um það í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd verði umfjöllunin í jafnvægi og þau sjónarmið sem hér hafa komið fram verði öll skoðuð í þaula.