132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:03]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað fjármálaráðuneytið treysti sér til að reikna og hvað ekki. Það hefur komið á daginn að ef upplýsingar geta verið erfiðar pólitískt séð fyrir hæstv. ráðherra þá er eins og allar reiknimaskínur stoppi í ráðuneytinu. Þá vísa ég til þess að þegar ég óskaði eftir því að ráðuneytið reiknaði út hver misskiptingin mundi verða þegar skattbreytingar ríkisstjórnarinnar hefðu náð fram að ganga fengust engin svör við því. Þá bar hæstv. ráðherra því við að ekki væri hægt að taka tillit til þess að vinnuframboð mundi breytast við það að breyta tekjuskattsprósentunni.

Mér finnst þetta vera mjög lélegar mótbárur ef borið er saman við svör hæstv. ráðherra hér í utandagskrárumræðu þar sem hann svaraði fyrirspurnum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá voru reiknaðar fram og aftur í tímann mínustölur og plústölur og ég veit ekki hvað út frá hinum ýmsu forsendum.

Ég ætla að nota tækifærið hér og fá líka einhvern botn í þá útreikninga sem hafa komið frá ráðuneytinu. Í þessum útreikningum ráðherra virðist vera ákveðin blekking og ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort hann reikni með sömu krónutölu árið 1994 í þessum dæmum sínum, 120 þús. kr., þegar hann er að reikna skattbyrðina það ár og noti síðan aftur sömu krónutölu þegar verið er að miða út skattgreiðslur af sömu krónutölu árið 2006. Fyrir þá sem ekki vita það hafa laun tvöfaldast á þessum tíma til ársins 2005 þannig að það er algjörlega ósambærilegt að bera saman skattbyrði á krónutölunni 120 þús. árið 1995 og síðan árið 2006. Ég óska eftir því að fá einhvern botn (Forseti hringir.) í þessa útreikninga ráðuneytisins.