132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:10]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Það er líkt framsóknarmönnum, virðulegi forseti, að reyna að rugla umræðuna sem hér er farin af stað um aukna skattbyrði á lágtekju- og meðaltekjufólk með því að taka upp óskylt mál. Þetta er auðvitað það sama og hæstv. fjármálaráðherra gerir. Hann heldur áfram sínum blekkingarleik, reynir að rugla fólk og slá ryki í augu þess til þess að fólk fái ekki sannleikann á borðið — sannleikann sem er sá að skattbyrði hefur verið að aukast verulega hjá lágtekju- og meðaltekjufólki. Hæstv. ráðherra hefur ekki tekist, þrátt fyrir að hann hafi reynt það, að hrekja þá útreikninga sem Stefán Ólafsson hefur sett fram, sem sýna fram á að 90% heimila í landinu hafa mátt sæta aukinni skattbyrði á síðustu tíu árum.

Núna setur hæstv. ráðherra fram skálduð dæmi og útreikningum er hagrætt til þess að fá þá niðurstöðu sem hann er að leita eftir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hann hefur ekki látið keyra niðurstöður um rauntekjur og skattgreiðslur allra einstaklinga í viðkomandi fjölskylduformi fyrir tímabilið 1994–2004 upp úr skattframtölum í staðinn fyrir að skálda einhver dæmi sem passa honum? Barnabótunum hagræðir hann líka og biður bara um útreikninga varðandi börn undir sjö ára aldri en ekki þar yfir þar sem foreldrar margra barna fá ekki barnabætur.

Komið hefur fram hjá öldruðum að sérfræðingahópur fjármála-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðneytis og Landssambands eldri borgara hefur staðfest útreikninga eldri borgara sem sýna fram á að skattur af 100 þús. kr. tekjum, rauntekjum á árinu 1988 — þá var enginn skattur greiddur af þeim — og af tekjum sem samsvara 100 þús. kr. í dag voru greidd 3,3% árið 1991 (Forseti hringir.) en 9,4% árið 2005. Þetta hefur verið staðfest af fjármálaráðuneytinu (Forseti hringir.) og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra um það.