132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:12]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að ræða hér málefni Fríhafnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en hér fór af stað umræða um skattamál á undan þeirri umræðu og ég held að það sé rétt að nota tímann sem ég hef, þann takamarkaða, til að fara í gegnum skattamálin og taka þátt í umræðu um Fríhöfnina síðar.

Hæstv. ráðherra sagði að það væri mikilvægt að reikna og það væri hægt að reikna hvað sem væri ef maður gæfi sér bara forsendur. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, það er hægt að reikna hvað sem er. En það er mikilvægt þegar maður er búinn að vera að reikna að segja satt um útkomuna, hver hún er. Það er nú einu sinni þannig að versta lygi sem til er er svokallaður hálfsannleikur.

Í Morgunblaðinu í gær voru tvær greinar um skattamál eftir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, það var hæstv. umhverfisráðherra og síðan var það hv. þm. Ásta Möller sem skrifaði: „Er aukinn kaupmáttur byrði?“ Skrýtin spurning.

Hvað segir hv. þingmaður í lok greinar sinnar:

„Aðalatriðið er þó að launahækkanir síðustu ára og almennt lækkað skatthlutfall hafa leitt til þess að fólk hefur að meðaltali 60% meira á milli handanna eftir skatt en á árinu 1994 og láglaunafólk enn meira. Er það ekki aðalatriðið?“

Þetta segir hv. þingmaður í grein sinni og maður veltir fyrir sér: Bíddu, skilur maður hlutina ekki rétt? Í vefriti fjármálaráðuneytisins frá 19. janúar stendur, með leyfi forseta:

„Hefur sá hópur hjóna sem skipar sér í lægstu tekjutíundina búið við stöðuga aukningu kaupmáttar og ráðstöfunartekna og eru þær nú 28% hærri en þær voru árið 1994.“

Já, 28% hærri. Hv. þm. Ásta Möller segir að meðaltalið sé 60% og það er rétt hjá henni. Láglaunafólkið hafði það betra. Láglaunafólkið hefur notið 28%. Hverjir hafa þá notið hátt yfir 60% þannig að meðaltalið sé 60%, hæstv. ráðherra?