132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Málefni Fríhafnarinnar.

[12:24]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðum um störf þingsins hafa komið upp tvö mál, tvö mjög mikilvæg mál, og útilokað er fyrir þingmenn að koma báðum þessum málum til skila á þeim tveimur mínútum sem ætlaðar eru í umræðu. Hér hefur verið lýst alveg sérstaklega eftir skoðunum hv. þingmanna Samfylkingarinnar á því hvernig farið verði með Fríhöfnina. Í þessu ljósi óska ég eftir því, virðulegi forseti, að málefni Fríhafnarinnar verði tekin til umræðu, að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra skili þinginu skýrslu um útfærsluna á umræddum greinum í tollalögum sem þurfa að birtast í reglugerð. Það verði ekki bara á grundvelli þeirra atriða sem fram komu hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og í spurningu hv. þm. Hjálmars Árnasonar heldur verði okkur líka gerð grein fyrir þeim leikreglum sem farið er eftir við reksturinn, hvaða leikreglum hann lýtur.

Ég held að það sé nauðsynlegt, hæstv. forseti, að forseti beiti sér fyrir þessu og gefi þingflokksformönnum svör um það strax í dag eða fyrir helgi hvaða dag sú umræða fer fram. Þá mun ekki standa á því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar láti hæstv. fjármálaráðherra heyra skoðanir sínar á rekstri Fríhafnarinnar og fyrir hvað við stöndum, m.a. það sem lýtur að öryggi starfsfólks.

(Forseti (BÁ): Þessari ósk hv. þingmanns verður komið á framfæri.)