132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Málefni Fríhafnarinnar.

[12:26]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hæstv. fjármálaráðherra þess efnis að ég hafi ekki áhuga á því að ræða um málefni Fríhafnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar óska ég eftir því að hæstv. forseti staðfesti það hér, þegar ég hef lokið máli mínu, að ég hafi beðið um orðið aftur í þessari umræðu og ekki fengið vegna þingskapa. Ég óska eftir því að hæstv. forseti staðfesti það þannig að það liggi fyrir að það er ekki áhugaleysi mitt á málefnum Fríhafnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem veldur því að ég tók ekki sérstaklega til máls um það.

En eins og ég sagði í ræðu minni um skattamálin: Í tveggja mínútna ræðu gefst ekki tími til að ræða um tvö mikilvæg mál og ég valdi það að fara í skattamálin einfaldlega vegna þess að ég er með í höndunum gögn sem sýna að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast kerfisbundið vera að segja hálfsannleik um það hvernig skatturinn hefur breyst, hvernig kaupmáttur hefur breyst — það skiptir miklu máli þegar maður hefur stuttan tíma í salnum til að ræða hlutina að koma á framfæri þeim hálfsannleik sem þar er á ferð.

Það vakti líka athygli mína, herra forseti, að hæstv. fjármálaráðherra svaraði í engu ræðu minni um skattamálin. Það var furðulegt að fá engin svör við staðreyndum sem lagðar eru fram og liggja fyrir skjalfestar, annars vegar í grein frá hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu og hins vegar á opinberu vefriti fjármálaráðuneytisins.

Ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum hér sem fyrst, eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir óskaði eftir, umræðu um Fríhöfnina og Flugstöð Leifs Eiríkssonar og sérstaklega þá í tilefni orða hæstv. ráðherra þar sem hann lýsti því yfir að við virtumst ekki hafa áhuga á að ræða það mál. Ég tel mjög mikilvægt, nú þegar verið er að vinna að þessum málum í fjármálaráðuneytinu, að við fáum að vita hvað verið er að gera. Það hafa heyrst fréttir af breytingum á starfsemi Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Það er spurning hvort við þurfum ekki að fá skýrslu um það efni, bæði frá hæstv. fjármálaráðherra og einnig frá hæstv. utanríkisráðherra þannig að við höfum það allt saman undir hér.