132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki ofsögum sagt að breytingar hafi orðið á undanförnum árum á kaupskipaútgerð í heiminum og ekki síður hér við land sem hafa, a.m.k. að sumra mati, verið mjög óeðlilegar og okkur óhagstæðar. Við höfum farið yfir þessi mál nokkrum sinnum. Reynt hefur verið að fylgjast með þróuninni. Samstarf hefur verið við kaupskipaútgerðir um það, sömuleiðis við hagsmunasamtök sjómanna. Það sem hefur kannski helst verið í veginum fyrir því að gripið yrði til einhverra ráðstafana er tvennt er snýr að kaupskipaútgerðinni, annars vegar hvort það mundi hafa jákvæð áhrif á þróun kaupskipaútgerðarinnar og hvort það hafi haft jákvæð áhrif á þróun kaupskipaútgerðar í þessum nágrannalöndum okkar sem hafa gripið til ráðstafana, þ.e. fjölda sjómanna og þar fram eftir götunum. Og svo er hitt, hvort þetta sé í samræmi við þau almennu sjónarmið sem við höfum haft uppi um það hvernig við högum skattlagningu okkar hér á landi. Í þriðja lagi hafa hagsmunaaðilar ekki heldur verið sammála um til hvaða aðgerða ætti að grípa ef til aðgerða ætti að grípa á annað borð.

Nú sýnist mér, eftir viðtöl við þó nokkra af hagsmunaaðilunum, að það gæti orðið til eins konar samhljómur um það hvaða aðgerðir þeir legðu til. Það auðveldar aðkomu stjórnvalda að málinu. En þá ber auðvitað að hyggja að hinum almenna þætti, hvort við teljum eðlilegt að fara út í þess konar aðgerðir borið saman við það sem almennt gildir. Það er rétt að það er mikilvægt hverri þjóð að eiga góða sjómenn á kaupskipum, ekki síður en á fiskiskipaflotanum. Það skiptir líka máli að eiga skip, eiga flota sem getur þjónað landinu. Menn verða þá auðvitað líka að hafa í huga á hvaða grundvelli slíkt byggist. Auðvitað hefur hentifánakerfið, ef svo má að orði komast, mjög slæmt orð á sér. Hluti af því sem nágrannaþjóðir okkar hafa gert hefur verið í þá átt að aðlagast því kerfi. Við sjáum á miðunum rétt utan við lögsöguna hvernig hentifánaskipin fara þar fram. Það er kannski ekki kerfi sem ætti að vera okkur til eftirbreytni. Hins vegar er þetta starfsemi sem skiptir okkur máli. Við þurfum því að vega það og meta í ljósi aðstæðna á hverjum tíma hvort skynsamlegt og rétt sé að grípa til einhverra ráðstafana.

Það erum við að gera núna. Við erum að fara yfir þau gögn sem við höfum tiltæk vegna okkar fyrri vinnu í þessum efnum. Ég átti í vikunni fundi með forsvarsmönnum hagsmunafélaga þeirra sjómanna sem í hlut eiga og ég hef gert ráðstafanir til að hitta forsvarsmenn kaupskipaútgerðarinnar síðar í vikunni. Vonandi koma út úr því von bráðar niðurstöður um það til hvaða aðgerða þeir vildu grípa og þá geta stjórnvöld vegið og metið á móti öðrum atriðum sem skipta máli hvort rétt sé að grípa inn í.

En þegar sérstaklega er talað um skattaívilnanir og þær bornar saman við skattaívilnanir í Færeyjum, sem eru á talsvert aðra lund en annars staðar á Norðurlöndunum, verðum við líka að hafa í huga að þegar sköttum er afsalað kemur ekki bara ríkið þar að máli, það eru líka sveitarfélögin. Stór hluti af staðgreiðsluskattinum, sem um er að tefla í þessari umræðu og um er að ræða í Færeyjum, er tekjur sveitarfélaganna. Við þurfum að hafa það í huga líka þannig að það er að mörgu að gæta. Þess er gætt og vonandi komumst við að niðurstöðu í þessu máli innan tíðar. Ég þakka að lokum (Forseti hringir.) hv. málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli.