132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í þessum málum hafa þjóðirnar í kringum okkur farið svolítið mismunandi leiðir eins og komið hefur fram í umræðunni. Allt að einu er niðurstaðan sú að það eru viðkomandi ríki sem gefa eftir skattgreiðslur sem tengjast launakostnaði farmannastéttanna. Samt sem áður virkar þetta ekki þannig að viðkomandi starfsmenn, farmennirnir, fái fleiri krónur í sinn vasa, heldur er þetta niðurgreiðsla til útgerða skipanna í öllum löndunum í kringum okkur.

Á undanförnum árum hafa nágrannaþjóðirnar, síðast Færeyingar og allra síðast Írar, tekið upp svona alþjóðlega skipaskrá eingöngu í þeim tilgangi að halda störfunum innan ríkisins og stefna að því að fjölga útgerð kaupskipa í viðkomandi löndum. Það hefur þeim tekist. Færeyingum hefur tekist að fjölga verulega skipum sem gerð eru út undir alþjóðafánanum færeyska og Írum hefur einnig tekist það. Er tiltölulega stutt síðan Írar fóru í þessa aðgerð.

Það er sem sagt ekkert því til fyrirstöðu, hæstv. forseti, að við getum náð sama árangri hér á landi annað en það að stjórnvöld hafa ekki fengist til þess að fara þær leiðir sem aðrar þjóðir hafa farið. Evrópusambandið hefur heimilað slíkar aðgerðir og beinlínis ýtt undir að slíkt yrði gert til þess að halda skipaflota innan Evrópusambandsins þannig að það er ekki um það að ræða að við förum gegn því. Það er um það að ræða að halda störfum í landinu og viðhalda þekkingu, viðhalda tengdum störfum við þessa útgerð og það er auðvitað mjög bagalegt ef svo heldur fram sem horfir. Íslenskir farmenn voru með 507 stöðugildi 1988, 254 1998 og ætli þeir séu ekki rétt rúmlega 100 í dag, hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Það er því eftir miklu að slægjast og stjórnvöldum ber auðvitað að aðhafast í málinu.