132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Leyfi til olíuleitar.

154. mál
[13:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um leyfi til olíuleitar. Þessa fyrirspurn lagði ég fram í byrjun þings í október og því eru fjórir mánuðir liðnir frá því að hún kom fram. Reyndar er hvorki við ráðherra að sakast né þá sem hér stendur að ekki sé búið að svara henni en frá því að fyrirspurnin var lögð fram hafa borist upplýsingar um undirbúning að leyfisveitingum til olíuleitar. Engu að síður eru ýmis atriði í fyrirspurn minni sem ekki hefur verið svarað.

Í september síðastliðnum sat ég stóra ráðstefnu fyrir hönd umhverfis- og auðlindanefndar Norðurlandaráðs um olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum, og ráðstefnuna sátu olíufyrirtæki, umhverfishagsmunaaðilar og frumbyggjar á norðurslóðum. Það var alveg ljóst að olíufyrirtækin í heiminum bíða í startholunum eftir að geta byrjað að vinna olíu á norðurslóðum. Á norðurskautinu er talið að einn fjórða af öllum olíu- og gasbirgðum heimsins sé að finna. Nú við hlýnandi loftslag má búast við að auðveldara verði að komast að þessum birgðum. Hæstv. ráðherra sagði í fréttum í janúar að við Íslendingar ynnum heimavinnuna okkar fyrir undirbúning að því að hægt verði að hefja olíuleit og leyfi til hennar hér fyrir norðan okkur. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Í hverju er heimavinnan fólgin? Hvaða viðbúnaður hefur verið hafður uppi, svo sem eins og viðbúnaður við bráðamengun? Hvaða búnað eigum við, eigum við t.d. olíugirðingar eða olíuupptökubúnað?

Náttúrlega má gera ráð fyrir að við verðum í samstarfi við Norðurlandaþjóðirnar um þetta að einhverju leyti hvað varðar bráðaviðbúnaðinn en við verðum að eiga útbúnað fyrir fyrstu viðbrögðin ef eitthvað gerist. Því má einnig búast við að mikil umferð verði um norðurslóðir við þetta og því þurfi að eiga búnað. Síðan bið ég hæstv. ráðherra að veita okkur vissar umhverfisupplýsingar. Olíuríki vinna grunnupplýsingar um umhverfið og ég spyr: Hvaða upplýsingar eru til og hversu langt erum við komin í að vinna þær hvað varðar lífríkið, botninn, setið, fiskstofna og annað á þeim slóðum þar sem hugað hefur verið að stefnumótun?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hversu langt er undirbúningur leyfisveitinga til olíuleitar á íslensku hafsvæði kominn, í hverju er undirbúningurinn fólginn og hvenær er gert ráð fyrir að hægt verði að veita leyfin?