132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Leyfi til olíuleitar.

154. mál
[13:15]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég get kannski ekki bætt svo mjög miklu við það svar sem ég gaf hv. þingmanni því það var nokkuð ítarlegt. Aðalatriðið í þessu máli er að vinnan er á fullri ferð og það eru mörg ráðuneyti sem koma að henni, m.a. umhverfisráðuneytið eins og gefur augaleið, en iðnaðarráðuneytið heldur utan um þá vinnu. Við ætlum okkur að komast það langt á næsta þingi eða ég vonast til að geta strax á haustþingi lagt fram frumvörp sem tengjast þessu máli til að lög hafi verið sett í upphafi árs 2007 og þá verði væntanlega hægt að snúa sér að veitingu leyfa og það tekur svo einhvern tíma þar til hægt verður að gefa

þau út. Við vonumst til að það geti orðið á árinu 2008–2009.

Þetta eru að mínu mati merkileg tíðindi því eins og kom fram í máli hv. þingmanns er áhugi fyrir því að skoða þau svæði nánar sem ég nefndi, sérstaklega Jan Mayen svæðið. Þó að ég vilji vara við of mikilli bjartsýni þá vitum við engu að síður að á norðurheimskautssvæðinu, á norðurslóðum, er að finna olíu- og gasauðlindir. Við vitum ekki nákvæmlega hvar þær eru. En þetta er eitt af þeim tækifærum sem við í ríkisstjórninni sjáum fyrir okkur að ekki megi trassa að koma í þann farveg að það geti nýst þjóðinni.