132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Nýting vatnsafls og jarðvarma.

458. mál
[13:26]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda ágæta innleiðingu í þetta mál. Ég vil gagnrýna orð hæstv. ráðherra þegar hún segir að það hafi verið að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem þessi vinna fór af stað því að við vitum það öll sem erum í þessum sal að verulegur þrýstingur utan frá var búinn að vera í mjög langan tíma á ríkisstjórnina að gera slíka áætlun þegar hún lét loksins undan og bar ekki málaflokkinn betur fyrir brjósti en svo að hún vistaði áætlunina undir hæstv. iðnaðarráðherra. Þessi rammaáætlun hefur því aldrei verið annað en rannsóknir á virkjunarkostum undir forræði hæstv. iðnaðarráðherra og þá erum við að tala um virkjanir til álbræðslu eða stóriðju frekar en nokkuð annað. Sá fókus hefur verið alrangur frá fyrsta degi. Og ég minni hér á þingsályktunartillögu frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gengur út frá því að þessi rammaáætlun verði flutt undir umhverfisráðuneytið og umhverfisráðherra. Þá fyrst verði hægt að fara að taka mark á henni. Ég hef þá kenningu að það hafi aldrei verið ætlun þessarar ríkisstjórnar að gera nokkurn skapaðan hlut með þessa áætlun og það er skýringin eða svarið við spurningu hv. (Forseti hringir.) þingmanns: Hvað varð af 1. áfanga?