132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Nýting vatnsafls og jarðvarma.

458. mál
[13:28]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir þessa fyrirspurn og ráðherra svörin. Hér er um stórmerkilegt verkefni að ræða, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem gerður er samanburður á ákveðnum virkjunarkostum og menn hafa komið sér upp gagnasafni um rannsóknir virkjunarkosta í landinu. Því það er nú einu sinni þannig. a.m.k. af hálfu okkar stjórnarliða, að við viljum nýta vatnsafl og jarðvarma með skynsamlegum hætti til að byggja upp atvinnu í landinu. Við byggjum slíkt atvinnulíf ekki upp með skynsamlegum hætti nema til staðar séu vandaðar rannsóknir og sú rammaáætlun sem við ræðum hér gengur í þá átt að við höfum ákveðið tæki til að meta ákveðna kosti til að nýta í þágu uppbyggingar atvinnulífs. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir gott starf í þessum efnum (Forseti hringir.) og styð það heils hugar (Forseti hringir.) að þetta verkefni verði áfram vistað undir iðnaðarráðuneytinu.