132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Staða sútunariðnaðarins á Íslandi er mjög erfið. Þannig hefur það verið um nokkurra ára skeið. Þetta endurspeglast glögglega í að vinnslu hefur verið hætt á Sauðárkróki og síðustu starfsmennirnir munu hætta störfum á Akureyri alveg á næstunni. Þetta er mikil breyting sem orðið hefur því fyrir um það bil 20 árum voru líklega 200 manns starfandi hjá þeim tveim sútunarverksmiðjum sem þá störfuðu. Sútunariðnaðurinn á Íslandi hefur því miður átt undir högg að sækja. Fyrirtækin hafa í raun margsinnis komist í þrot á síðustu 20 árum. Gærum sem til vinnslu hafa komið hefur fækkað jafnt og þétt á umliðnum árum og þeim sem vinnu hafa haft af þessari atvinnugrein hefur fækkað að sama skapi.

Þetta er reyndar ekki séríslenskt fyrirbæri. Sútunariðnaðurinn lagðist nánast af í Norður-Evrópu á síðasta áratug liðinnar aldar. Ástæða þess var fyrst og fremst sú að um vinnuaflsfrekan iðnað er að ræða sem stenst ekki samkeppni við ódýrt vinnuafl, t.d. í Asíu og Tyrklandi. Það hefur líka sín áhrif að skinnavinnslan notar allmikið af mengandi efnum og kostnaður við að koma í veg fyrir að þau berist út í umhverfið er mikill. Þá er og staðreynd, rétt eins og er með ullariðnaðinn, að skinnavörur eiga í sífellt harðnandi samkeppni við gerviefni og má einnig nefna að áróður svokallaðra umhverfissinna gegn skinnavörum hefur haft áhrif á atvinnugreinina.

Það hefur því allt hjálpast að við að kippa grundvellinum undan sútunariðnaðinum, ekki aðeins á Íslandi heldur um alla Vestur-Evrópu. Auk þess vil ég nefna það sem kom fram hjá hv. þingmanni að hátt gengi krónunnar hefur haft á þetta mikil áhrif eins og á annan útflutning. En við trúum því að brátt fari nú að verða breyting á miðað við þær spár sem við höfum séð koma frá fagmönnum á því sviði.

Ég kannast við að hafa fengið bréf frá hv. þingmanni þar sem hann óskaði eftir að þingmenn kjördæmisins kæmu saman til að fjalla um þetta mál. Það er gott að vita að hv. þingmaður hefur gríðarlega trú á þingmannahópnum og ekki síst á 1. þingmanni kjördæmisins og telur að kraftaverk gerist ef þessi hópur komi saman. En ég er algerlega sannfærð um að það hefði engu breytt um þetta mál. Staðan er þannig að við Íslendingar urðum undan að láta og þessi iðnaður er farinn úr landi.