132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Framtíð Hönnunarsafns Íslands.

265. mál
[14:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin og lýsi yfir ánægju með þann tón sem í þeim er. En ég verð engu að síður að slá á þá strengi hér í seinni ræðu minni og það verður að segjast eins og er að sleifarlagið í þessu máli er ekki eitthvað sem við eigum að láta viðgangast. Miðað við að stjórnarnefnd sem starfaði að málefnum safnsins skilaði af sér áliti, ég held að það hafi verið vorið 2003, og taldi að á næstu fjórum árum þyrfti að byggja um 1.700 fermetra sérhæft hús handa Hönnunarsafninu á áberandi stað í Garðabæ, þá getum við ekki látið slíkt viðgangast. Auðvitað þurfum við að nýta fjármuni vel og rökræða framtíðarfyrirkomulag vel, og að sjálfsögðu má hafa allt undir í þeim efnum, eins og samstarf við vettvanginn sem heyrir undir hæstv. iðnaðar- viðskiptaráðherra og samstarf við Þjóðminjasafn sem er ekki síður mikilvægt. Ég held að það sé afar mikilvægt að þau skref sem stigin verða í þessum efnum gangi út frá því að Hönnunarsafnið og Þjóðminjasafn Íslands styðji hvort annað og eigi með sér formlegt samstarf, því hönnunararfur okkar er jú varðveittur á Þjóðminjasafninu.

Það er gott til þess að vita að hæstv. menntamálaráðherra skuli vera að huga að málunum. Það þarf að gera formlegan samning og ég tek undir að það megi líka skoða skilgreininguna á söfnum í tengslum við endurskoðuð safnalög. En í öllu falli er það höfuðatriðið núna að drífa sig af stað í þessa miklu vinnu sem fram undan er. Sjá fyrir endann á henni innan ekki svo langs tíma, því eins og ég segi, ungir hönnuðir sem eru að skapa hér úti á akrinum í dag þurfa á því að halda að hér sé öflugt hönnunarsafn.