132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skólafatnaður.

441. mál
[14:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort til athugunar sé í ráðuneytinu að stjórnvöld beiti sér fyrir samræmdum reglum um skólafatnað nemenda í grunnskólum. Á síðustu missirum hefur af og til farið fram umræða um kosti og galla skólafatnaðar, eins og það er kallað nú til dags í stað skólabúninga, og sýnist sitt hverjum. En ég held að reynsla af notkun slíks fatnaðar sé nokkuð góð.

Í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ er mikil ánægja með skólabúninga og ég tel að svo sé í fleiri skólum sem slíkt hafa reynt. Ég held að það sé þess virði að kanna sérstaklega kosti og galla skólafatnaðar, skoða reynsluna frá öðrum löndum og kanna viðhorf foreldra og skólasamfélagsins til þeirra og að menntamálayfirvöld hafi ákveðna forgöngu í málinu án þess að neinu sé þvingað upp á sveitarfélögin af því að endanleg ákvörðun er að sjálfsögðu alltaf og á að vera hjá skólastjórnendum, sveitarfélögunum og samtökum foreldra þar sem endanleg ákvörðun verður tekin í hverjum skóla fyrir sig. Hins vegar fari fram samræmd athugun og umræða um kosti og galla skólabúninga eða skólafatnaðar. Kostirnir eru að mörgu leyti þeir sem lúta að einelti og efnamun foreldra barnanna. Allir vita að gróft einelti viðgengst stundum og kemur alltaf upp í skólum og grunnskólum eins og annars staðar. Ef allir væru þar á jafnréttisgrundvelli hvað klæðaburð varðar þá held ég að mjög stórum áfanga væri náð í baráttunni gegn einelti og stórt skref væri stigið til að jafna stöðu barnanna og vinna gegn einelti í skólum af því að efnamunurinn á Íslandi hefur aukist verulega á síðustu árum. Stéttlaus grunnskóli er að mínu mati ein helsta auðlind íslensks samfélags, einn af stóru kostunum við samfélag og samfélagsgerð okkar og við eigum að varðveita stéttlausa grunnskóla. Þess vegna held ég að það komi mjög vel til álita að beita sér fyrir öflugri umræðu um kosti og galla skólafatnaðar þannig að sveitarfélög og einstakir skólastjórnendur og foreldrasamtök geti tekið ígrundaða afstöðu til þess á grunni slíkrar athugunar hvort það væri ekki þess virði og hvort það væri ekki árangursríkt í baráttunni gegn einelti og vegna ýmissa annarra hluta. Ég held að þetta mælist ágætlega fyrir hjá bæði foreldrum og börnum þegar allt kemur til alls.