132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skólafatnaður.

441. mál
[14:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er sjálfur fylgjandi því að skólafatnaður sé notaður í skólum þó svo að forræði yfir því eigi að liggja hjá skólastjórnendum og foreldrasamtökum í hverjum skóla og held að það sé jafnaðarmennska af bestu sort að notast við skólafatnað og skólabúninga. Það eru mörg hundruð ef ekki mörg þúsund börn á Íslandi sem með einhverjum hætti líða fyrir efnalega stöðu heimilis síns og foreldra sinna. Í daglegu lífi í skólunum kemur það skýrast fram í fatnaði barnanna, sérstaklega þar sem notkun á merkjavöru og fínni fatnaði hefur aukist verulega meðal barna og unglinga og það hefur breyst mjög á síðustu árum og er í sjálfu sér hið besta mál, en þá kemur þessi munur miklu skarpar fram en nokkurn tíma áður.

Ég er sannfærður um að mikill fjöldi barna yrði leystur úr mikilli ánauð með því að nota skólabúninga, þeirri ánauð að mæta daglega í skólann í tötralegum fötum miðað við þá jafnaldra sína og skólafélaga sem best eru búnir og ríkmannlegastir. Ég held að sú jafnaðarmennska og það stóra skref sem yrði stigið, t.d. gegn einelti, með því að nota skólafatnað og skólabúninga væri mikið heillaskref.

Ég hefði viljað heyra skarpari skoðun hjá hæstv. ráðherra og að hún hefði forgöngu um að opið mat á kostum og göllum skólabúninga lægi fyrir, að hún legði með jákvæðum hætti og línurnar og hefði forustu í málinu, enda menntamálaráðherra allrar þjóðarinnar og ætti að beita sér fyrir þessu góða máli þó svo að forræðið liggi að lokum hjá sveitarfélögunum. Umræðan skiptir mjög miklu máli og að upplýsingar liggi fyrir um kosti og galla þess að nota skólabúning og skólafatnað af því að stærri skref í baráttunni gegn einelti er varla hægt að taka að mínu mati.