132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Sameining opinberra háskóla.

442. mál
[14:39]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Þegar leitað er svara við spurningum hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um áætlanir um sameiningu opinberra háskóla þykir mér rétt að taka fram í því ljósi að ég hef á þeim stutta tíma sem ég hef verið menntamálaráðherra komið að því að framkvæma sameiningu tveggja háskóla, þ.e. Tækniháskóla Íslands, sem var ríkisháskóli, og Háskólans í Reykjavík. Átti ég á sínum tíma frumkvæði að því að rektorarnir hittust til að fara yfir það hvort ekki væri tækifæri til að sameina þá góðu skóla, sem og varð. Menn sáu mikil tækifæri felast í því en ég man ekki til þess að Samfylkingin hafi akkúrat stutt það mál en hv. þingmaður leiðréttir mig þá í því.

Annað mál varðandi sameiningu stofnana sem ég tel styrkja háskólastigið er að ég hef beitt mér fyrir því að fimm stofnanir á fræðasviði íslenskra fræða sameinist og frumvarp um það er núna til umræðu í hv. menntamálanefnd. Tilgangur þeirrar sameiningar er alveg skýr, eins og sameiningar Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, þ.e. að efla rannsóknarstarf, auka miðlun á sviði íslenskra fræða, auk þess að efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar íslenskri menningu sem skiptir okkur svo miklu máli en áhugaverð umræða hefur einmitt á síðustu dögum spunnist um mikilvægi og þýðingu íslensku tungunnar.

Síðast en ekki síst stendur nú yfir skoðun á fýsileika þess að kanna kosti og galla þess að sameina Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í góðu samkomulagi og eftir umræður milli rektora skólanna og ráðuneytisins. Þessi skoðun byggir á þeirri forsendu að sameiningin leiði til eflingar kennaramenntunar í landinu. Það er mitt leiðarljós sem ég hef sagt að sé í rauninni þríþætt. Í fyrsta lagi hvort sameiningin komi til með að efla og styrkja kennaramenntun í landinu. Í öðru lagi hvort hún komi til með að efla háskólastarfið og háskólaumhverfið. Og í þriðja lagi hvort hún komi til með að efla rannsóknir og rannsóknaumhverfið á þessu sviði. Það eru þessi þrjú atriði sem ég vil fá svör við, hvort slík sameining mundi leiða til þeirrar niðurstöðu.

Tekin var ákvörðun um að skipa starfshóp annars vegar út frá breyttu og metnaðarfullu námsskipulagi kennaranáms við Kennaraháskóla Íslands og hins vegar hugmynda sem nú eru um framtíðarskipulag kennaramenntunar þar sem áhersla er lögð á aukinn fagundirbúning kennara fyrir kennslu í grunnskólum. Starfshópnum er ætlað að skila niðurstöðu sinni fyrir lok febrúarmánaðar 2006.

Nú liggur fyrir mat á því hvaða skóla er hægt að sameina með tilliti til náms og rekstrarlegra forsendna. Einn af þeim þáttum sem liggja til grundvallar hverri ákvörðun um mögulega sameiningu einstakra skóla eða háskólastofnana er skýr sýn á viðkomandi verkefni og hagkvæmnisathuganir leika þar lykilhlutverk. Ég vil í þessu sambandi benda á könnun frá 2002 sem ráðgjafarfyrirtækið Nýsir gerði fyrir Háskóla Íslands og Kennaraháskólann þar sem skoðaðar voru ýmsar leiðir til samstarfs eða sameiningar skólanna. Þar voru þessir háskólar bornir saman með tilliti til starfsemi þeirra, svo sem stjórnskipulags, starfsmannahalds, reksturs þeirra, laga og reglna sem þeir starfa eftir. Einkum voru kannaðar leiðir sem samhæft gætu betur kennslu, rannsóknir og stoðþjónustu skólanna á hliðstæðum starfssviðum og áþekkum viðfangsefnum, einkum þó á sviði uppeldis- og menntunarfræða. Niðurstöður þeirrar skýrslu voru nokkur skýrar. Í fyrsta lagi yrði sameinaður skóli stærri og öflugri og betur í stakk búinn til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, byggja upp ný rannsóknarsvið, nýjar námsleiðir og bæta stoðþjónustu Í öðru lagi yrðu auknir möguleikar á þverfaglegu námi og rannsóknum sem gera sameinaða háskóla færari um að þróa starfsemi sína í takt við nýja tíma og tryggja betur gæði kennslu og rannsókna. Og í þriðja lagi að með sameiningu væri hægt að hagræða í rekstri og nýta þannig betur fjármuni til hagsbóta fyrir nemendur og kennara skólanna. Starfshópurinn kemur náttúrlega til með að fara gaumgæfilega yfir þessa skýrslu meðan hann er að störfum og eins og ég gat um mun hann skila niðurstöðum sínum undir lok þessa mánaðar.

Í samræmi við þá stefnumörkun sem verið hefur við lýði hafa í raun engir sameiningarkostir ríkisháskólanna verið útilokaðir. En svo ég víki sérstaklega að skoðun á sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans þá vil ég taka fram að í dag eru reknir þrír ríkisháskólar undir menntamálaráðuneytinu. Það eru Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri sem allir bjóða upp á kennaramenntun auk Háskólans í Reykjavík. Ekki hefur verið gert ráð fyrir aðild Háskólans á Akureyri í yfirstandandi samningaviðræðum, enda hefur verið litið svo á að Háskólinn á Akureyri hafi ákveðna sérstöðu vegna staðsetningar sinnar á Norðurlandi. Hins vegar hafa þessir þrír háskólar átt með sér margvíslegt samstarf og mun svo verða áfram ef niðurstaðan verður sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

Herra forseti. Ég næ ekki að fara yfir allt í þessu svari en mun koma að því í seinna svari mínu.