132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Sameining opinberra háskóla.

442. mál
[14:44]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Það hlýtur að vera gild spurning að velta því upp hvort 300 þúsund manna þjóð geti starfrækt átta háskóla meðan nágrannaþjóðir okkar og miklu fjölmennari hafa færri háskóla. Það eru rök bæði með og á móti því. Þessi fjöldi sýnir auðvitað þá ánægjulegu sprengingu sem orðið hefur í aðsókn nemenda á háskólastig, menntastig þjóðarinnar er að hækka.

Hins vegar hljótum við líka að velta því upp í þessu samhengi hvort við nýtum fjármunina nægilega vel með því að hafa skólana svona marga. Við eigum þess vegna að fara mjög opin inn í umræðu um hvort það geti aukið skilvirkni og aukið betur nýtingu fjár að sameina þá. Ef við lítum til þeirrar sameiningar sem nýlega átti sér stað, Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík, þá sjá menn þrátt fyrir allar hrakspár hvað tveir góðir skólar hafa blómstrað enn meira eftir þá sameiningu og því skyldi það ekki gerast með Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands?