132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Sameining opinberra háskóla.

442. mál
[14:46]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessar spurningar til hæstv. menntamálaráðherra. Ég held að þetta sé brýnt mál sem við þurfum að ræða á þingi. Ég held að það sé afar mikilvægt að sameiningarvilji skólanna komi frá þeim sjálfum, að ekki sé verið að þvinga þá í sameiningu. Eins og komið hefur fram í umræðunni, bæði hjá hv. fyrirspyrjanda og hæstv. menntamálaráðherra, skiptir það sjálfstæði skólanna verulegu máli að þeir fái að dafna á eigin forsendum, og sérstaklega er Háskólinn á Akureyri með þær sérstöku aðstæður að vera á Norðurlandi og þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að hann haldi þeirri sérstöðu.

Auðvitað getur samvinna átt sér stað milli skólanna en það verður líka að ríkja ákveðin samkeppni á milli þeirra. Ég held að hún sé af hinu góða í þessu tilfelli. Vandamál háskólanna á Íslandi er hins vegar aðallega það að þeir eru í fjársvelti og þar ættu ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra að taka sig á.