132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Vasapeningar öryrkja.

324. mál
[14:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég beini hér fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um það hvort áform séu uppi um að taka upp aldurstengda hækkun eða uppbót á vasapeninga öryrkja sem dveljast á stofnun og þá til að hækka ráðstöfunartekjur þeirra á einhvern hátt.

Öryrkjum á vasapeningum hefur fækkað mjög á undanförnum árum en fyrir svona 10 árum voru þeir mun fleiri. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun frá 2004 eru aðeins eftir 240 öryrkjar með vasapeninga frá Tryggingastofnun. Það er nánast búið að afleggja vasapeningakerfið gagnvart öryrkjum og þeir sem höfðu þá eru núna komnir með heimili á sambýlum eða þjónustuíbúðum ýmiss konar, halda örorkugreiðslum sínum og greiða af þeim kostnað, svo sem fæðiskostnað, leigu o.s.frv., og halda reisn sinni hvað það varðar.

Því miður eru enn þá 240 öryrkjar heimilislausir inni á sjúkrastofnunum. Árið 2003 samþykktum við hér breytingu á almannatryggingalögunum um það að öryrkjar fengju aldurstengda hækkun eftir því hvenær á ævinni þeir yrðu öryrkjar. Þeir sem urðu öryrkjar ungir, eða verða öryrkjar ungir, fá uppbót vegna þess að þeir eiga yfirleitt ekki tök á því að safna sér réttindum í lífeyrissjóði. Hér hafa setið eftir þeir öryrkjar sem eru margir hverjir langveikir, geðsjúkir, og eru með heimili á sjúkrastofnunum, eins og t.d. á Kleppsspítala. Þetta voru 240 manns árið 2004 eins og ég sagði áðan og þetta fólk hefur til ráðstöfunar 21.993 kr., sem eru óskertir vasapeningar, og þeir skerðast um 65% ef aðrar tekjur fara yfir 7 þús. kr. og verða að engu eða falla algjörlega niður ef menn eru með aðrar tekjur upp á 42 þús. kr. En þetta fólk hefur yfirleitt ekki tök á því að afla sér nokkurra viðbótartekna.

Þess vegna finnst mér ástæða til að kalla eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugað að þessum hópi hvað varðar aldurstengdu örorkuna því að það hefur einnig komið fram, og kom fram í vetur í samræðum mínum við félagsráðgjafa á spítala hér í borg sem annast einmitt hóp þessara einstaklinga, að sveitarfélögin styrkja þessa einstaklinga ekki lengur. Áður fengu þeir jólauppbót og ýmsa styrki frá sveitarfélaginu sem þá reyndar skerti vasapeningana en það (Forseti hringir.) er ekki lengur til staðar. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi íhugað aldurstengda uppbót til þessa hóps.