132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Endurbætur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði.

373. mál
[15:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Norðvest., Anna Kristín Gunnarsdóttir, beinir til mín fyrirspurn um áætlanir sem gerðar hafa verið um endurbætur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði sem nauðsynlegar séu vegna breytinga á fyrirkomulagi sjúkraflugs og um stöðu framkvæmda.

Því er til að svara að á vegum heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis hafa ekki verið gerðar áætlanir um endurbætur á húsnæði sjúkrahússins enda er ekki þörf fyrir breytingar á húsnæðinu vegna breytinga á fyrirkomulagi sjúkraflugsins. Hins vegar hefur verið ákveðið að auka við búnað sjúkrahússins, að því hnigu kröfur starfsfólks og okkur fannst eðlilegt og sjálfsagt að gera það. Fjármunir hafa verið veittir til þeirra kaupa og verið er að kaupa þann búnað sem til þarf. Ef ég man rétt veittum við fyrir áramót tíu millj. kr. til kaupa á nauðsynlegum búnaði sem starfsmenn þar töldu sig þurfa.

Hv. þingmaður rakti stöðu mála varðandi sjúkraflugið. Því miður hafa endurbætur á Þingeyrarflugvelli tafist þannig að við tókum þá ákvörðun fyrir áramót að staðsetja vél á Ísafirði um sinn. Þann 1. maí kemur sérútbúin sjúkraflugvél til þessara nota og sá háttur er betri og nútímalegri en nú er, styttir viðbragðstímann til muna. Nú hefur verið ákveðið að hafa sjúkraflugvél á Ísafirði í vetur. Við munum svo meta framhaldið og hafa hliðsjón af því hvað framkvæmdum miðar við Þingeyrarflugvöll þegar við ákveðum það.

Ég vona að þessar upplýsingar svari spurningum hv. þingmanns en vil geta þess að lokum að sjúkrahúsið á Ísafirði er mjög góð stofnun, veitir góða þjónustu og er með mikla héraðshlutdeild, sem kölluð er, og það skiptir miklu máli í þessu sambandi. Ég vil láta það koma fram í þessu svari mínu.