132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Viðbúnaður Landhelgisgæslunnar.

155. mál
[15:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um viðbúnað Landhelgisgæslunnar. Þetta er orðin allgömul fyrirspurn, fjögurra mánaða. Það er hvorki við þá sem hér stendur né hæstv. ráðherra að sakast að hún komst ekki á dagskrá fyrr. Ýmislegt hefur gerst síðan ég lagði fyrirspurnina fram en engu að síður finnst mér ástæða til að mæla fyrir henni.

Hún varð til eftir að ég hafði setið ráðstefnu um loftslagsmál og fyrirhugaða olíu- og gasvinnslu á norðurskautinu. Þá lagði ég fram þessa fyrirspurn, í byrjun október. Eftir að ég kom heim af þessum fundi hefur farið fram sérstakur undirbúningur hjá Landhelgisgæslunni fyrir aukið eftirlit með skipaflutningum og siglingum þegar siglingaleiðir opnast um norðurheimskautið. Hvernig er Landhelgisgæslan í stakk búin til að bregðast við ef slys eða óhöpp verða, t.d. við olíuflutninga?

Það hefur auðvitað komið fram og er mönnum ljóst að hlýnun hér á norðurhveli er mun hraðari en áður var talið. Það mun auðvitað hafa áhrif á alla þá sem búa hérna og hefur í för með sér bæði ógnir og tækifæri. Það mun leiða af sér aukna skipaflutninga, og olíuflutninga að öllum líkindum og þá hættu á mengunarslysum, s.s. olíuslysum þar sem gert er ráð fyrir flutningi á olíu um viðkvæm hafsvæði sem er matarkista okkar hér sem fiskveiðiþjóðar.

Það þarf ekki mjög stórt olíuslys á okkur helstu veiðisvæðum til að skaða okkar hreinu ímynd, ímynd varnings okkar. Það er talið að olíuflutningar muni aukast mjög frá norðurskautinu og vestur eftir, jafnvel til Bandaríkjanna og suður um Evrópu, og þá erum við í ákveðinni hættu. Landhelgisgæslan hefur sinnt því hlutverki vel hingað til, þ.e. að vera með eftirlit með siglingum og annast björgunaraðgerðir ef slys eða óhöpp hafa orðið á hafsvæðinu hér í kring.

Ég spyr hæstv. ráðherra í framhaldi af þessu — ég veit að það er að koma nýtt skip og ég geri ráð fyrir að það verði búið helsta búnaði sem þarf til björgunar á þessum svæðum: Eigum við útbúnað til fyrstu viðbragða vegna mengunarslysa eða olíuslyss, svo sem olíugirðingar eða olíuuppsugutæki? Hvernig verður Landhelgisgæslan útbúin og hversu langt á veg er sá tæknibúnaður kominn sem snýr að björgun á þessu efni?