132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Orkusparandi búnaður í skip Landhelgisgæslunnar.

450. mál
[15:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Hér er fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um orkusparandi búnað í skip Landhelgisgæslunnar. Þetta er mun nýrri fyrirspurn en sú sem ég mælti fyrir áðan og spyr ég hér hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að orkusparandi búnaður, sambærilegur þeim sem komið var fyrir í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni, verði komið fyrir í nýju skipi Landhelgisgæslunnar.

Frú forseti. Skipafloti okkar Íslendinga notar mjög mikla olíu, og stöðugt hækkandi olíuverð og aukin áhersla á umhverfismál eru þau viðfangsefni sem skipaútgerð og rekstur skipa mun glíma við hjá okkur. Stöðugt aukast kröfur um að minnka útblástur koldíoxíðs sem verður til við bruna olíu. Við Íslendingar eigum hér á landi sprota- og nýsköpunarfyrirtækið Marorku sem hefur unnið kerfi eða búnað sem getur náð niður árlegri olíunotkun skipa um allt að 10–15%. Þarna erum við í fararbroddi í heiminum hvað varðar þennan orkusparandi og umhverfisbætandi búnað.

Við erum að nálgast viðmiðunarmörk í heildarútblæstri koldíoxíðs hvað varðar þau mörk sem eru í Kyoto-bókuninni vegna skipaflotans og síðan má nefna hér í þessu sambandi að bæði ríkisstjórn og ráðuneyti eins og iðnaðarráðuneytið hafa sett sér stefnu í orkusparnaðarmálum, m.a. í bættri notkun orku. Ég tel einnig mikilvægt að við styðjum frumkvöðlafyrirtæki eins og Marorku sem er búið að hanna þetta orkusparandi kerfi og notum búnað þess eins víða og við getum, eins og ríkisstjórnin hefur gert í rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. Mig langar líka til að geta þess að mjög mikill áhugi er á þessum búnaði víða í heiminum, og m.a. áforma Kanadamenn að koma þessum orkusparandi umhverfisvæna búnaði fyrir í öllum sínum ferjum, landhelgisgæsluskipum, herskipum o.s.frv. Enn fremur má geta þess að þessi búnaður mun borga sig upp á 1–2 árum verði honum komið fyrir í skipum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst hann beita sér fyrir því að slíkum orkusparandi búnaði verði komið fyrir í nýju skipi Landhelgisgæslunnar sem við ræddum reyndar líka í fyrri fyrirspurn?