132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattur á líkamsrækt.

421. mál
[15:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um skatt á líkamsrækt vegna þess að sú skattheimta er staðreynd. Hins vegar felst í henni ákveðin mismunun sem er auðvitað illþolandi í skattkerfinu en bendir líka til þess að við eigum að taka þessi mál upp í heild og skoða hug okkar um skattheimtu af þessu tagi.

Skattheimtan fer í raun og veru fram með þrennum hætti. Í fyrsta lagi er ljóst af nýlegum úrskurði að skatt skal greiða þegar félagsmenn í verkalýðsfélagi fá styrk frá verkalýðsfélagi sínu til líkamsræktar sem tíðkast í nokkrum félögum, að ég hygg. Einkum er það VR sem fréttir hafa borist af. Í öðru lagi er ljóst að þegar atvinnurekandi styrkir starfsmann sinn til líkamsræktar, sem tíðkast í mörgum fyrirtækjum, þá skal annaðhvort starfsmaðurinn borga skatt af þeirri greiðslu, sé hún gefin upp sem hlunnindi eða flokkuð sem hlunnindi hjá skattinum, eða þá að atvinnurekandinn sjálfur borgar skattinn af greiðslum sínum ef hann kýs það heldur. Þannig er líkamsrækt skattlögð á þrjá vegu, þ.e. þessir styrkir til líkamsræktar.

Það vekur hins vegar athygli að í reglugerð nr. 483/1994 er, eins og tekið er fram í þingskjalinu, sérstaklega undanskilinn skatti frádráttarbær kostnaður sem telst vera, með leyfi forseta „við almenna fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og almenna heilsubótaraðstöðu“ en venja hefur verið að telja þessa almennu heilsubótaraðstöðu m.a. þá aðstöðu sem fyrirtæki koma sér sérstaklega upp til heilsuræktar fyrir starfsfólk sitt.

Nú skal fullkomlega viðurkennt að ekkert er einfalt í þessu frekar en í öðrum skattamálum og auðvitað má benda á fjölmarga styrki og greiðslur sem þegar er skattlagt og mismun þar á milli. Á hinn bóginn stefna stjórnvöld að því í lýðheilsu- og heilbrigðismálum að koma mönnum til líkamsræktar og efla heilsu manna en fjármálaráðuneytið kemur þar á móti og leggur skatt á þann styrk sem menn veita samkvæmt þessari stefnu.

Ég vona að fjármálaráðherra svari fljótt og vel, og ég á satt að segja von á jákvæðum svörum frá honum við þeirri spurningu hver afstaða hans sé til skattlagningar, jákvæð með þeim hætti að hann sé reiðubúinn til að beita sér fyrir afnámi þessa skatts.