132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattur á líkamsrækt.

421. mál
[15:42]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Svar við 1. lið fyrirspurnar hv. þm. Marðar Árnasonar er að samkvæmt þeim upplýsingum frá skattyfirvöldum sem hægt hefur verið að nálgast hafa styrkir til líkamsræktar ekki verið sérgreindir sérstaklega í tölvukerfum skattyfirvalda. Þannig hafa skattyfirvöld ekki krafist þess við gagnaskil að styrkir séu sundurliðaðir sérstaklega með tilliti til líkamsræktarstyrkja, þ.e. að launamiðar skýri frá upplýsingaskyldum aðilum, svo sem stéttarfélögum eða almennum launagreiðendum. Þá liggur ekki fyrir sérstök tölfræðileg úttekt á skattlagningu umræddra styrkja sem slíkra við álagningu.

Varðandi liði b og c í 1. tölulið skal það upplýst að ekki verður gerður greinarmunur varðandi skattskyldu umræddra fríðinda hvort heldur launagreiðandi greiðir beint til líkamsræktarstöðvar vegna tilgreinds starfsmanns eða greiðir sama starfsmanni samsvarandi fjárhæð í formi styrks.

Svar við liðum a, b og c í spurningu eitt er því á þá leið að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir.

Svar við 2. lið: Hvorki er gerð sú krafa í skattframtali atvinnurekanda að frádráttur umrædds kostnaðar frá tekjum sé tilgreindur sérstaklega né á það við að slíkur kostnaður sé almennt tilgreindur sérstaklega í ársreikningi atvinnurekanda. Ekki er því unnt að meta missi ríkissjóðs í skatttekjum af þeim toga sem um er spurt og er því svarið við spurningu tvö á þá sömu lund og spurningu eitt að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir.

Svar við 3. lið: Það er hluti af meginreglu laga um tekjuskatt að til skattskyldra tekna telst allt endurgjald fyrir starf hvort sem það er greitt með peningum eða sem hlunnindi, gæði eða fríðindi sem launamaður fær úr hendi launagreiðanda, sbr. 7. gr. laga um tekjuskatt. Dæmi um skattskyld hlunnindi eru t.d. fatnaður, fæði eða afnot af bifreið sem launagreiðandi lætur starfsmanni í té endurgjaldslaust. Jafnframt hefur verið litið svo á að styrkir til líkamsræktar séu hluti launa og teljast þeir því til skattskyldra tekna í skilningi 7. gr. laga um tekjuskatt. Breyting á þeirri framkvæmd væri frávik frá meginreglu tekjuskattslaganna.

Svar við 4. lið: Hvers konar almenn aðstaða á vinnustað fyrir starfsmenn hefur almennt ekki verið talin skattskyld í hendi starfsmanna jafnvel þó að aðstaðan kunni að vera frádráttarbær fyrir atvinnurekanda? Sem dæmi um það má nefna kaffiaðstöðu á vinnustað, sbr. 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt af tekjum á atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Um slíka aðstöðu gilda sömu reglur og um heilsubótaraðstöðu. Erfiðleikum yrði bundið að ætla að gera heilsubótaraðstöðu skattskylda í hendi launþega þar sem um almenna aðstöðu á vinnustað er að ræða, sem óvíst er hversu margir nýta sér, auk skilgreiningarvanda á hugtakinu „heilsubótaraðstaða“. Ekki er kunnugt um að heilsubótaraðstaða á vinnustað sé það útbreidd að hún teljist vera í raunverulegri samkeppni við almenna líkamsrækt utan vinnustaða eða að mismunur á skattlagningu í hendi launþega hafi það í för með sér að starfsmenn noti frekar heilsubótaraðstöðu sína á vinnustað sínum fremur en almenna líkamsrækt utan vinnustaða.

Almennt er rétt að rifja upp í þessu samhengi að áður en það skattkerfi sem við nú þekkjum og búum við var tekið upp 1988 var fjöldi liða frádráttarbær til skatts en ein af meginástæðum breytinganna var sú að einfalda skattkerfið og færa alla frádráttarliðina sem þá voru inn í einn frádráttarlið sem væri persónuafslátturinn. Það má því segja að í einhverjum skilningi sé persónuafslátturinn í dag jafngildi frádrátta sem áður tíðkuðust og höfðu verið byggðir á einhverjum svipuðum grunni og hv. þingmaður er að ýja að hér varðandi heilsubótaraðstöðuna, (Gripið fram í.) eða leggja það beinlínis til, svo að ég dragi ekki úr áherslunni sem hv. þingmaður leggur á það. Ekki ætla ég mér þá dul að fara að rífast við hann um íslensku. Þess vegna held ég að ef taka ætti upp slík einstök atriði þyrfti það að gerast í heildstæðu samhengi varðandi skattkerfið, hvernig við byggjum það upp, hvort og hvernig persónuafslátt eða skattleysismörk við erum með eða hvort við erum með einhvern fjölda mismunandi frádráttarliða.