132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattur á líkamsrækt.

421. mál
[15:47]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn. Ég minni hæstv. ráðherra á að búið er að samþykkja á Alþingi átak í heilsueflingu með hreyfingu að markmiði og leiðbeiningum um mataræði og mikil vinna er í gangi á vegum ríkisstjórnarinnar í þá veru. En ég verð að segja að eins og fyrirkomulagið er í dag leggur ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra kannski ekki alveg sitt lóð á vogarskálarnar í þeirri hvatningu eða hitt þó heldur. Önnur höndin virðist vinna gegn því sem hin er að gera í núverandi ríkisstjórn. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig mun ráðuneyti hans vinna að því að þrýsta á þessa heilsueflingu og er hann með einhverja vinnu í gangi í þá veru að hvetja fólk til hreyfingar og heilsueflingar í staðinn fyrir að vera með skattlagningu á þá sem fá styrki til þess?