132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattur á líkamsrækt.

421. mál
[15:50]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er enn þá duglegt fólk í fjármálaráðuneytinu en ég held að það sé algerlega ástæðulaust fyrir hann að greina eitthvað á milli afstöðu fjármálaráðuneytisins og afstöðu fjármálaráðherrans. (MÁ: Hann er pólitíkus, hitt eru embættismenn.) Afstaða fjármálaráðuneytisins er sú afstaða sem fjármálaráðherrann tekur. Það er enginn munur þar á.

Það er hins vegar athyglisverð umræða sem hér er upp komin og sérstaklega þær ábendingar sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom með um þá stefnumörkun sem Alþingi hefur gert varðandi hreyfingu og mataræði, því að fæði er eitt af þeim hlunnindum sem um er að ræða. Fæði er skattlagt eins og líkamsræktarstyrkirnir. Það leiðir auðvitað hugann að því líka að alls konar tæki og tól eru notuð við líkamsræktina og sumt af því er hugsanlega, án þess að ég kunni tollskrána utan að, með tollskrárnúmerum og er tollað og með vörugjöldum og er selt út úr verslunum með virðisaukaskatti. Þannig blandast þetta allt saman hjá okkur í þjóðfélaginu og þeim viðskiptum sem þar eru. (Gripið fram í.) En ég velti því líka fyrir mér í þessu sambandi: Þarf að styrkja fólk til að hreyfa sig? (Gripið fram í: Suma.) Þarf það að koma frá vinnuveitandanum, lífeyrissjóðunum eða launþegasamtökunum að fá fólk til að hreyfa sig? Þarf síðan að borga fyrir hreyfingu í líkamsræktarstöð? Er ekki hollasta hreyfingin að fara út að ganga? Það segja a.m.k. heilsugæslulæknarnir sem ég hef talað við, að það hollasta sem maður geri sé einfaldlega að fara út að ganga og það þarf enga styrki til þess.