132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Snjómokstur.

427. mál
[15:59]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir þessa fyrirspurn sem er þörf sem og hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Við hljótum að binda vonir við að þær reglur verði endurskoðaðar með það að markmiði að mokað verði um Norðausturland og niður á Vopnafjörð alla daga vikunnar. Þetta eru hálendisvegir og það er rétt sem hæstv. ráðherra benti á að við höfum á undanförnum árum verið mjög heppin með tíðarfar miðað við það sem hefur viðgengist á undanförnum áratugum og við vitum ekki hvenær harðir vetur koma aftur. Það er ljóst miðað við þá umferð sem er í gangi um Norðausturland að það er óásættanlegt annað en sú leið sé mokuð alla daga vikunnar.

Því fagna ég sérstaklega yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra að þetta verði endurskoðað og hann má vænta liðstyrks okkar þingmanna í þeim efnum að endurskoða þessar reglur því að það er mjög mikilvægt fyrir þetta svæði og þessi byggðarlög að mokað verði þar alla daga vikunnar.