132. löggjafarþing — 57. fundur,  1. feb. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:13]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna langra umræðna hv. þingmanna Vinstri grænna um þetta mál sem þeir hafa í rauninni haldið uppi til þess að finna fætur undir það að þeir séu þeir einu sem berjist fyrir náttúruvernd á Íslandi en ekki vegna þess máls sem hér er á ferðinni, þá geri ég eftirfarandi grein fyrir mínu atkvæði: (Gripið fram í.)

Það er þannig að þetta frumvarp snýst eingöngu um að hægt sé að veita leyfi til að rannsaka vatnsföll á Íslandi og líka möguleika til orkunýtingar vegna orku sem er framleidd með jarðhita. Þetta snýst ekki um neitt annað. Hvernig menn fara svo með þetta til nýtingar í framtíðinni fer auðvitað eftir þeim reglum sem settar verða í kjölfarið. Þær reglur eru ekki orðnar til. Hæstv. ráðherra getur ekki veitt vilyrði á grundvelli þessara laga lengur. (Forseti hringir.)