132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika.

[10:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Tveir eru þeir þjóðréttarsamningar sem segja má að séu hinir allra mikilvægustu á sviði umhverfismála, samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem oft hefur verið tekist á um á Alþingi Íslendinga og samningurinn um líffræðilega fjölbreytni. Um hann hefur minna verið fjallað hér þó að tilraunir hafi verið gerðar til að fá um hann umfjöllun. Nú er komin út skýrsla frá Ríkisendurskoðun sem má segja að sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum hvað varðar eftirfylgni þessa samnings. Sú skýrsla er tilefni þessarar umræðu.

Samningurinn hefur verið í gildi síðan í desember 1994 og enn hefur ekki verið gerð um það áætlun hvernig beri að framfylgja honum. Þó hafa þrír hv. þingmenn allar götur frá 1998 reynt eftir megni að skapa þrýsting á umhverfisráðherra á hverjum tíma. Árið 1998 þurfti hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra Guðmundur Bjarnason að svara spurningum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar; Siv Friðleifsdóttir, þá hæstv. umhverfisráðherra, þurfti að svara spurningum mínum og hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, og nú er komið að hæstv. umhverfisráðherra Sigríði Önnu Þórðardóttur.

Ævinlega hafa svörin verið á þá leið að nú sé þetta allt að gerast, framkvæmdaáætlun á næsta leiti og markvisst unnið að því að styrkja grundvöll fyrir framkvæmd samningsins.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar hefur nú dæmt þau svör sem innihaldslaust hjal, og vanræksla umhverfisráðherra og ríkisstjórna undangenginn áratug hefur verið afhjúpuð. Skyldur þær sem samningurinn leggur okkur á herðar hafa ekki verið uppfylltar og það sem gert hefur verið virðast vera hálfgerðir málamyndagjörningar.

Frá upphafi hefur verið ljóst að aðild okkar að samningnum mundi kalla á nokkrar breytingar á íslenskri löggjöf og stefnumörkun. Framkvæmdaáætlun er grundvallaratriði og er henni ætlað að stuðla að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Meðal annars er gert ráð fyrir að áætlun sé gerð um að allir atvinnuvegir þjóðarinnar lúti lögmálum sjálfbærrar þróunar og að um það séu gerðar sérstakar áætlanir.

Í skýrslunni kemur fram að löggjöf okkar sé afar ábótavant hvað þetta snertir, hvergi sé minnst berum orðum á samninginn og þrátt fyrir að lykilhugtök hans eins og sjálfbær landnýting og líffræðileg fjölbreytni komi fyrir hér og þar í lögum eru þau hvergi skilgreind af neinni nákvæmni og skapar það að sögn skýrsluhöfunda umtalsverða óvissu um túlkun og framkvæmd.

Í samningnum er þess krafist að tillit sé tekið til náttúrunnar, eða líffræðilegra auðlinda, en nýlegt dæmi um löggjöf sem sniðgengur þessi grundvallarmarkmið og eru því brot á samningnum eru þau lög sem samþykkt voru héðan frá Alþingi Íslendinga í gær, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar segir skýrsla Ríkisendurskoðunar að leitast sé við að marka þá stefnu að náttúrusjónarmið hafi ekki úrslitaáhrif við ákvarðanatöku heldur séu þau aðeins liður í stærra samhengi þegar meta skal hvort nýting náttúruauðlinda sé sjálfbær.

Í skýrslunni er aðferðafræði sú sem lýst er í frumvarpinu sem við höfum tekist á um síðustu daga, frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, gagnrýnd harkalega og það er sagt berum orðum að athuga beri að löggjöf um vötn og jarðrænar auðlindir sé á forræði iðnaðarráðherra en ekki umhverfisráðherra, nákvæmmlega eitt af okkar sterku gagnrýnisatriðum varðandi þá löggjöf. Skýrsluhöfundarnir álykta þar með að virkan samráðsvettvang skorti og einnig skorti að eðlilega hafi verið staðið að innleiðingu og framfylgni samningsins um líffræðilegan fjölbreytileika á Íslandi.

Frú forseti. Það mætti nefna ótal aðra þætti úr þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem stjórnvöld fá falleinkunn. Náttúrufarsrannsóknir eru eitt svið sem vanrækt hefur verið, landsáætlanir um vernd og vöktun líffræðilegrar fjölbreytni hafa ekki verið unnar. Engin stofnun hefur beinlínis það hlutverk í íslenska stjórnkerfinu að gæta sérstaklega hagsmuna umhverfisins eða náttúrunnar, vera talsmaður eða umboðsmaður náttúrunnar eins og segir í skýrslunni, og fjármagn hefur verið af svo skornum skammti að lítið hefur verið hægt að sinna innleiðingu samningsins.

Frú forseti. Ég met það svo að hér sé staðfest áralöng gagnrýni hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á slælega frammistöðu ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar og þar áður hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Davíðs Oddssonar í umhverfismálum. Málaflokkurinn hefur verið látinn sitja á hakanum og menn hafa lagt sig í líma við að rangtúlka þá samninga sem við höfum undirgengist og fara í kringum þá með öllum tiltækum ráðum. Í mínum huga er þetta alvarlegur áfellisdómur og rétt að hafa áfram vakandi auga með þessari ríkisstjórn. Sá ráðherra sem ábyrgur er fyrir málaflokknum núna, hæstv. umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir, hefur fengið frá mér einar fimm spurningar til að svara við þessa umræðu þessari alvarlegu gagnrýni sem Ríkisendurskoðun setur fram á ríkisstjórnina vegna slælegrar frammistöðu í umhverfismálum.