132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika.

[10:38]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni er einn mikilvægasti alþjóðasamningurinn á sviði umhverfismála og veitir leiðsögn um verndun og sjálfbæra nýtingu lífríkisins. Þetta er eitt mikilvægasta verkefni okkar Íslendinga, og sjálfbær nýting hinnar lifandi náttúru á landi og í sjó er grundvöllur efnahags og velferðar þjóðarinnar.

Samningurinn hefur haft mikil áhrif á stefnumótun og aðgerðir íslenskra stjórnvalda á sviði umhverfismála og fleiri málaflokka allt frá því að hann var gerður árið 1992. Í þeirri vinnu er ekki um innihaldslaust hjal að ræða eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lét liggja að hér áðan. Það dugar ekki að horfa einungis á tilvísanir til samningsins í lagatextum heldur liggja þær hugmyndir, gildi og tilmæli sem í honum er að finna víða til grundvallar í íslenskri löggjöf og stefnumótun stjórnvalda. Samningnum og markmiðum hans er m.a. gert hátt undir höfði í stefnumörkun Íslands um sjálfbæra þróun, velferð til framtíðar og stefnumörkun stjórnvalda um málefni hafsins.

Eitt meginmarkmið samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni. Þessu viðfangsefni er settur rammi, ekki síst með náttúruverndarlögum frá 1999 en ákvæði samningsins voru m.a. höfð til hliðsjónar við samningu þeirra. Markmiðsgreinar laganna hafa beina skírskotun í 1. gr. samningsins og þar er m.a. að finna ákvæði um innflutning, ræktun og dreifingu lífvera í samræmi við ákvæði hans þar um. Friðlýsingarákvæðum náttúruverndarlaganna var breytt frá fyrri lögum til að styrkja verndun og friðun lífvera, búsvæða, vistgerða og vistkerfa í samræmi við 8. gr. samningsins.

Lagasetning er auðvitað nauðsynleg en ekki skiptir síður máli að hrinda ákvæðum laga í framkvæmd og það urðu ákveðin tímamót í framkvæmd náttúruverndar á Íslandi með tilkomu fyrstu heildstæðu náttúruverndaráætlunarinnar fyrir um tveimur árum sem byggir mjög á hugmyndafræði samningsins. Verndun lífríkisins hefur því að mínu mati stórlega eflst á þeim rúma áratug sem liðinn er frá gildistöku samningsins.

Eitt meginákvæði samningsins lýtur að greiningu og vöktun náttúrunnar. Þar stendur Ísland hvað veikast eins og bent er á í nýlegri úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd samningsins. Ég tel afar brýnt að efla vinnu við að afla grunngagna um náttúru Íslands og hvatti m.a. til að efla þá gagnaöflun um íslenska náttúru á fjórða umhverfisþingi í nóvember sl. Ég mun einnig leggja til að grunnrannsóknir á íslenskri náttúru verði eitt af meginviðfangsefnum í rannsóknum á næsta starfstímabili Vísinda- og tækniráðs.

Rannsóknarverkefnið Botndýr á Íslandsmiðum eða BIOICE er dæmi um vel heppnað rannsóknarverkefni og er vísast eitt stærsta verkefnið um kortlagningu botndýra sem unnið er að í heiminum. Náttúrufræðistofnun hefur fyrir hönd umhverfisráðuneytisins haft umsjón með þessu verki í samstarfi við fjölmarga aðila en það hefur m.a. leitt til uppgötvunar margra nýrra tegunda lífvera. Á þessu sviði hefur okkur miðað verulega áleiðis á sviði þekkingar þótt annars staðar þurfi að gera betur. Starf að stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni stendur yfir og á að ljúka á árinu. Ég reikna með að í henni verði einhvers konar aðgerðaáætlun. Ekki er unnt að svara því fyrr en þeirri vinnu lýkur hvort þörf er á sérstökum áætlunum sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spyr um en í stefnumörkuninni verður fjallað um vernd og vöktun lífríkisins og gerðar tillögur um það sem mætti bæta og efla í þeim efnum.

Umhverfisráðuneytið hefur á hendi forræði og meginábyrgð á framkvæmd samningsins í samvinnu við önnur stjórnvöld eftir því sem við á. Sú samvinna skiptir miklu máli. Samningurinn er rammasamningur. Hann hefur skírskotun, ekki aðeins til náttúruverndar heldur líka til sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og fleiri athafna mannsins. Það skiptir því miklu máli að innleiða ákvæði hans sem víðast og efla þekkingu á efni hans og þar tel ég að við séum á réttri leið.

Nú fer fram samráð ráðuneyta fyrir fundi á vegum samningsins eftir því sem tilefni eru til og algengt er að fulltrúar annarra ráðuneyta fari á lykilfundi ásamt fulltrúum umhverfisráðuneytisins. Þegar er fyrir hendi virkur samráðsvettvangur um málefni samningsins til viðbótar við þá stefnumótunarvinnu sem ég nefndi áður en þar starfa saman fulltrúar fimm ráðuneyta. Það er síðan álitaefni hvort lögfesta eigi varúðarregluna og aðrar grunnreglur umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar sem m.a. er (Forseti hringir.) að finna í Ríó-yfirlýsingunni frá 1992. Ég mun koma nánar inn á þessi mál í seinni ræðu minni.