132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika.

[10:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég þakka umræðu um þetta mikilvæga mál. Það er greinilegt á ræðu hæstv. umhverfisráðherra að hún gerir ekki lítið úr þessu máli, þessum samningi um líffræðilega fjölbreytni. Það sem ég tel einna ámælisverðast sem kemur fram í þessari skýrslu, og er ekkert nýtt í umræðunni um umhverfismál, er að grunnrannsóknir og kort vantar og það snertir ekki einungis það að uppfylla einhvern samning, heldur það að við getum gert árangursríkt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þess vegna eiga menn ekki endilega að líta á dóm Ríkisendurskoðunar um að uppfylla þennan samning endilega í því ljósi að verið sé að uppfylla eitthvert erlent markmið, heldur að það gagnast okkur að fara í þessa vinnu.

Ég get ekki tekið undir alla þá gagnrýni sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sérstaklega ekki að búa þurfi til nýtt embætti, talsmann náttúrunnar. Ég tel að það geti einfaldlega orðið til að flækja málið. Ég hefði talið miklu nær að efla þau frjálsu félagasamtök sem eru til staðar, svo sem Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd, en fara ekki að búa til enn eitt embættið. Þá kemur fram í skýrslunni að efla þurfi samvinnu stofnana og ég tel að það verði ekki gert með því að stofna enn eitt embættið.

Ég þakka þessa umræðu og vona að hún verði málinu til framdráttar.