132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika.

[10:52]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er aðdáunarvert hvað botndýr og Sandgerðingar hafa gert fyrir umhverfismál á Íslandi. Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni um þau efni.

Hins vegar er það þannig að undanfarinn áratug og auðvitað miklu lengur hafa umhverfismálin verið afgangsmál. Þau hafa ekki verið forgangsmál, þau hafa verið afgangsmál. Það sést ágætlega í Stjórnarráðinu, á hinu stjórnsýslulega og pólitíska sviði, að umhverfisráðherrann er yfirleitt síðasta myntin í taflinu, í hrossakaupunum í samningunum. Það er sérkennilegt að af þeim fimm ráðherrum sem hafa verið umhverfisráðherrar einir — því að einu sinni setti Framsóknarflokkurinn umhverfisráðuneytið undir landbúnaðarráðuneytið — hefur enginn þeirra orðið aftur ráðherra. Það stendur að vísu til bóta hvað einn þeirra varðar, umhverfisráðherra númer þrjú, en svoleiðis er það samt enn þá.

Um leið og ég ítreka afstöðu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um að við tvö ætlum að fá þetta mál tekið fyrir í umhverfisnefnd og skila rækilegri skýrslu til Alþingis sem hafi um þetta sérstaka umræðu — því að til lítils eru þessi plögg ef þau eru ekki rædd og afgreidd — hlýt ég að benda í kjölfar hv. 5. þm. Norðaust. á tíðindin í þessari umræðu. Þau eru, þótt margt hafi hér verið vel sagt, að sjálfsögðu þau að enginn framsóknarmaður talar. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sást í dyrunum áðan, leit hér yfir og hvarf aftur, yggldur á brún og brá, en þeir hafa ekki talað hér. Þó er það þannig að framsóknarmenn hafa stjórnað þessu ráðuneyti í níu ár, frá 1995 til síðla árs 2004. Það er sérstaklega fjallað um svör framsóknarmanna í ráðuneytunum á síðum 40–45 í skýrslunni. (Forseti hringir.) Þau svör sem þeir gefa hérna við fyrirspurnum eru skorin niður við trog. (Forseti hringir.) Hvar er Framsóknarflokkurinn?