132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:20]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum mánuðum kom hingað stór hópur frá OECD til að gera úttekt á stefnu stjórnvalda í háskólamálum. Það liggur fyrir að sá hópur mun skila af sér innan sex mánaða, þ.e. í mars eða apríl. Hefði ekki verið vitlegra að bíða með frumvarp um háskólalög þangað til sú úttekt lægi fyrir þar sem vænta má margra athugasemda um stefnu stjórnvalda í háskólamálum? Það er margt gott í þessu frumvarpi en þá kemur akkúrat að hinni spurningunni, því frumvarpið vekur kannski meiri athygli fyrir það sem ekki er í því. Það tekur ekki á fjárhagsvanda skólanna.

Opinberu háskólarnir eru í fjárhagslegum kröggum og framtíð þeirra og þar með framtíðarmarkmið í mikilli óvissu og eins og hæstv. ráðherra nefndi um 22. gr. frumvarpsins þá tekur frumvarpið ekki á þessum grundvallarvanda háskólanna sem annaðhvort eru verulega aukin opin framlög frá hinu opinbera eða heimild til skólagjalda. Á þessu tekur frumvarpið ekki með neinum hætti.