132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:22]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hingað kom fjölmenn nefnd frá OECD, sem eins og margar aðrar nefndir bæði frá OECD og öðrum koma og fylgjast með frábærri þróun hjá okkur Íslendingum í háskólamálum. Við höfum vissulega margt lært af erlendum þjóðum en það er líka greinilegt að það er margt sem við erum að gera sem vekur athygli og þessi mikla fjölbreytni á háskólastigi er vissulega eftirtektarverð.

Það er einu sinni þannig að löggjafarvaldið er á hinu háa Alþingi og við getum ekki verið að bíða eftir skýrslum erlendis frá, ekki nema hv. þingmaður ætli sér það að hv. Alþingi eigi að bíða eftir fyrirmælum erlendis frá. Vissulega hefur verið tekið tillit til sjónarmiða fagaðila, bæði þeirra sem hafa verið starfandi og eru starfandi hér innan lands sem utan. Og eins og ég ítrekaði í ræðu minni áðan var sérstaklega haft samráð við samstarfsnefnd háskólastigsins. Það er verið að koma sérstaklega til móts við sjónarmið og kröfur sem gerðar hafa verið til háskólanna, þ.e. að auka gæði í kennslu og rannsóknum. Þær kröfur setjum við fram með skýrum hætti um leið og við höldum áfram að styðja og efla háskólana og undirstrika sjálfstæði þeirra og svigrúm til athafna.