132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:23]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra nefndi ekki einu orði grundvallarmálið sem er fjárhagsleg staða opinberu háskólanna.

Þegar hæstv. ráðherra tók við lyklavöldum í menntamálaráðuneytinu var hún stórorð í viðtölum við fjölmiðla um að hún ætlaði að beita sér fyrir því að opinberu háskólarnir fengju heimild til skólagjalda.

Nú er það svo að opinberu háskólarnir eru í alvarlegum kröggum. Þeir hafa ekki fengið þau opinberu framlög sem þeir þurfa á að halda, staða þeirra gagnvart sjálfstæðu einkareknu háskólunum hefur ekki verið jöfnuð. Einkareknu háskólarnir fá jafnhá nemendaframlög og hinir opinberu háskólar en þar að auki heimild til skólagjalda sem aftur er lánað fyrir hjá lánasjóðnum sem má segja að séu að helmingi niðurgreidd af ríkinu. Framlög ríkisins í gegnum lánasjóðinn og beinu framlögin á nemanda eru þar með mikið hærri en í opinberu háskólunum. Þetta frumvarp tekur ekkert á þessu, þ.e. að bæta alvarlega fjárhagsstöðu opinberu háskólanna og jafna stöðu þeirra að þessu leyti við hina einkareknu og sjálfstætt starfandi háskóla. Þessu verður hæstv. ráðherra að svara mjög skýrt í umræðunni í dag og þess vegna vekur þetta frumvarp miklu meiri athygli fyrir það sem ekki er í því heldur en fyrir það sem er í. Margt ágætt er að finna í frumvarpinu, um það er engin spurning og við munum væntanlega ræða það fram og til baka í dag en frumvarpið tekur ekki á því sem mestu máli skiptir sem er fjárhagslegt uppnám opinberu háskólanna.