132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:33]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er afar gott að hæstv. menntamálaráðherra kom einmitt inn á þetta vegna þess að staðreyndin er sú að þetta frumkvæði og sjálfstæði Háskólans á Akureyri hefur verið mikils metið, að taka inn nemendur sem hafa ekki lokið stúdentsprófi en hafa samt þekkingu, færni og þroska til að stunda háskólanám. En það eru einmitt þeir nemendur sem hafa ekki fengið pláss í skólanum vegna niðurskurðar á fjárframlögum til skólans, eða á ég að segja öllu heldur, skólinn hefur ekki fengið að vaxa og dafna eins og eðlilegt væri. Mér þætti því gott ef tekin yrði upp sú regla sem er t.d. í Danmörku þar sem ekki eru endilega gerðar kröfur um stúdentspróf eftir að nemendur hafa náð ákveðum aldri, mig minnir að það sé 25 ára. Ég held að það væri eðlilegt viðmið hér og stjórnvöld verða auðvitað að sjá til þess að háskólarnir hafi nægilegt fjármagn til að geta tekið inn stúdenta (Forseti hringir.) sem hafa til þess þroska og hæfileika.