132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:16]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa spurningu. Það er rétt, það kom fram í máli mínu að ég tek að vissu leyti undir þá gagnrýni sem verið hefur uppi varðandi samkeppnisstöðu skólanna. Við getum samt ekki horft fram hjá því að það hefur orðið gríðarleg sprenging á háskólastiginu. Við sjáum að frá 1999 hefur prófgráðum í háskólum fjölgað um 55% eða um 112. Og fjöldi nemenda hefur tvöfaldast, úr 8.100 í rúm 16.000 á þessum tíma og þetta eru staðreyndir sem ekkert er hægt að undanskilja enda kom hv. þingmaður að því hér í ræðu sinni áðan að fjárframlög til háskólastigsins hafa hækkað. Hann talar um það hvort eigi að ræða um upptöku skólagjalda og ég held að í þeirri vinnu sem fram undan er verðum við að íhuga alla kosti. Mér finnst það vera mjög slæmur kostur sem ég tel ekki koma til greina, alla vega við svo búið. En hitt er svo annað að við getum ekkert horft fram hjá þessari stöðu. Hv. þingmaður minntist hér á Háskólann á Akureyri. Þar hafa deildir verið sameinaðar og það má alveg segja að skólinn hafi gengið vel fram í þeirri hagræðingu, enda var þar komið að þeim þolmörkum að það þurfti að staldra við og stokka aðeins upp. En þar eru miklir erfiðleikar, t.d. vegna húsaleigu. Ég hef bara orð ráðherra fyrir því að það verði bætt en ég trúi því og treysti að það verði bætt á þessu ári. Og það verði komið enn frekar til móts við Háskólann á Akureyri. Bara til að mynda framlög til háskóla árin 2000–2006, eins og til Háskólans á Akureyri hafa aukist um 140%. Þannig að það er ekki hægt að segja að sé verið að draga saman. En við munum auðvitað halda áfram að fjölga nemendum og sem ábyrgir stjórnmálamenn verðum við að koma með einhverjar lausnir í því, en töfralausnina er ég ekki með hér og nú.