132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:20]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þingmaður kom inn á málefni Háskólans á Akureyri aftur þá vil ég í upphafi máls míns geta þess að t.d. núna í fjárlögum milli ára 2005–2006 er um að ræða 7,9% aukningu. Það er því töluvert umfram það sem normið er þannig að stjórnvöld eru svo sem að reyna að koma til móts við þetta. Þó tel ég að megi gera enn betur og hef fullvissu um að svo verði gert og þá sérstaklega varðandi húsaleiguna.

Það er eitt atriði sem við megum ekki gleyma í þessu og það er reiknilíkanið, en það stendur yfir endurskoðun á því og þar er auðvitað vandi fámennu deildanna fólginn. Af því t.d. að hv. þingmaður var að ræða um íslenskuna þá þekki ég vel þann vanda sem þar við blasir, verandi nemandi þar. En þar erum við auðvitað að glíma við þann vanda líka hversu hóparnir eru skilgreindir litlir í líkaninu. Og ég vona innilega að þessi endurskoðun muni skila okkur einhverju varðandi það og eins að reikniflokkarnir verði hækkaðir vegna þess að t.d. í hugvísindadeild er allt nám í lægsta reikniflokki sem er töluvert lágt. Ég vil segja það hér og ítreka að það er alltaf verið að auka framlög til háskólastigsins en það dugar ekki til. Hv. þingmaður kom hér inn á Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég er sammála hv. þingmanni um að væru skólagjöld tekin upp en lánað til þeirra þá gæti ríkið alveg eins látið þetta fjármagn fara beint til skólanna vegna þess að ríkið er alltaf að greiða hærri og hærri hlut af námslánunum beint. Sá hluti jókst núna með því að lækka endurgreiðslubyrði námsmanna. Þannig að það er margt í deiglunni. Það er verið að smíða ný lög um ríkisrekna háskóla. Það stendur yfir endurskoðun á reiknilíkani og stjórnendur eru alltaf að reyna að auka framlög til háskólastigsins. Þannig að ég tel að við séum á réttri leið í þessu öllu saman en þurfum kannski að gera enn betur.