132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:42]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sagði að skólagjöld gætu styrkt innviði skólanna en ætti ekki að nota til að leysa fjárhagsvanda þeirra. Hún vildi að fram færi heildstæð umræða um kosti og galla skólagjalda þó að hún hafi ekki orðað það nákvæmlega þannig.

Ég hef kallað mjög eftir því að hæstv. menntamálaráðherra leiði umræðu um framtíðarfjármögnun háskólastigsins í heild sinni, bæði hvað varðar gjaldtöku skóla og aðkomu hins opinbera að rekstri skólanna. Því vildi ég nota tækifærið til að skora á hæstv. menntamálaráðherra að setja niður og skipa þverpólitískan starfshóp um framtíðarfjármögnun háskólastigsins sem tekur heildstæða, breiða og vandaða umfjöllun um kosti og galla skólagjalda og leiði þá umræðu og það mál til lykta á næstu missirum í þverpólitískri nefnd þar sem aðkoma allra stjórnmálaflokkanna væri tryggð svo og skólasamfélagsins. Ég held að það gæti verið mjög góð leið til að leggja og leiða til lykta (Forseti hringir.) framtíðarfjármögnun háskólastigsins.