132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:17]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er eðlilegt að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með þau skref sem stigin hafa verið í dag vegna þess að þau eru býsna mikilvæg. Þetta mál er það stórt að það er nauðsynlegt að það sé unnið í sátt og að það sé unnið saman. Það skorti hins vegar á það, fannst mér, í ræðu hæstv. menntamálaráðherra að gleðin væri þar alls ráðandi. Ég vona að hæstv. ráðherra sýni betur gleðina í málinu í seinni ræðu sinni á eftir. Það er nauðsynlegt að við gleðjumst yfir svo mikilvægum skrefum sem þessu. Það er mikilvægt þegar næst sátt um það við skólasamfélagið hvaða leiðir við viljum fara inn í framtíðina. Það er alveg sérstakt ánægjuefni fyrir okkur í Samfylkingunni að sjá í þessu merka plaggi sem heitir „Skólastarf og skólaumbætur – 10 skref til sóknar“ að hver einasti liður þar fellur algerlega að stefnu okkar í þessum málum.

Er býsna ánægjulegt fyrir okkur að upplifa að hæstv. menntamálaráðherra tekur höndum saman við Kennarasamband Íslands um að fara þá leið sem við höfum sagt alla tíð að væri sú rétta í þessum efnum. Það er langt síðan að við töluðum um að æskilegt væri að skoða hvort hægt væri að stytta nám til loka framhaldsskólans. Við höfum ætíð talað um að það ætti að skoða allt skólakerfið í heild sinni sem er einmitt fyrsti punkturinn og grundvallarpunkturinn í því sem hér er verið að leggja fyrir. Við höfum einnig talað um að starfsnámið þurfi að vera inni í þessari mynd. Ég vona svo sannarlega að það takist vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkur að framhaldsskólinn sé sú öfluga stofnun sem hún þarf að vera í samfélagi okkar og mikilvægur hlekkur í menntakerfinu.

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að óska enn á ný eftir að hæstv. ráðherra sýni (Forseti hringir.) gleði sína í seinni ræðunni á eftir.