132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:21]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Það er erfitt að koma upp í ræðustól eftir svona skemmtilega ræðu en það að ganga í eina sæng er auðvitað dálítið annað en að slá á útrétta sáttarhönd, held ég. Hins vegar er vissulega rétt að það voru gleðitíðindi að hæstv. menntamálaráðherra skyldi boða til fréttamannafundar í dag og boða stefnubreytingu í þessu fáránlega, afar óvinsæla og órökstudda máli, skerðingu náms til stúdentsprófs. En í ræðu hæstv. menntamálaráðherra kemur berlega í ljós að hún er alls ekki hætt við málið, heldur ætlar hún bara að fresta þessari skerðingu um eitt ár. Eitt ár í viðbót. Það er reyndar búið að fresta henni einu sinni áður. Það er gott að taka eigi upp samvinnu við framhaldsskólakennara. Þetta höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sagt allan tímann: Hvernig væri að vinna með framhaldsskólakennurum? Hvernig væri að vinna með stúdentum? Er ekki kominn tími til að gera það? Jú, í dag lýsir hæstv. menntamálaráðherra því yfir að hún ætli að gera það. Það er vel. Ég ætla bara að vona að kennurum takist að koma vitinu fyrir hæstv. menntamálaráðherra svo að hún falli algjörlega frá þessum fáránlegu hugmyndum um skerðingu náms til stúdentsprófs.

Ég hef aðeins tveggja mínútna ræðutíma hérna í dag og get því ekki farið yfir öll þau fjölmörgu rök sem kennarar og nemendur hafa talið upp um það hversu heimskuleg og vanhugsuð þessi skoðun er, þessi ákvörðun. Við höfum fengið greinargerðir frá stærðfræðikennurum, frá tungumálakennurum og nú síðast frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Allir leggjast á eitt um að reyna að telja hæstv. menntamálaráðherra hughvarf í þessu máli.

Nú er sem sagt kominn bjartsýnn tónn í ræðurnar og það er von um að hæstv. menntamálaráðherra falli algjörlega frá málinu. (Forseti hringir.) Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn í þessu máli fyrir hönd framhaldsskólanema, framhaldsskólakennara (Forseti hringir.) og þjóðfélagsins alls.