132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:28]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það hjálpar ekki mikið umræðunni um menntamálin sem er svo mikilvæg að þingmenn eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tali með þeim hætti sem hann gerði áðan. Ég verð þó reyndar að sýna ákveðinn skilning því að einungis á tveimur sólarhringum er enn og aftur U-beygjuflokkurinn búinn að taka tvær U-beygjur í einu og sama málinu, og geri aðrir betur. Það er bara þannig sem málin liggja og standa.

Hins vegar er stóra málið það að við munum halda áfram, þannig að það liggi alveg ljóst fyrir, að vinna að því að breyta námsskipan til stúdentsprófs. Hún tekur gildi árið 2010, ekki 2009. Við munum vinna að þessu máli í samvinnu og samstarfi við kennarasamfélagið. Við höfum undirstrikað það. Það sem mér finnst skipta miklu meira máli í þessu öllu saman er að það eru fleiri atriði en eingöngu það sem við nefnum breytta námsskipan til stúdentsprófs sem við munum vinna saman að. Það sem mér finnst skipta máli er m.a. þýðing þess að efla og styrkja kennaramenntun í landinu. Við förum samhent í það. Við ætlum að efla hér námsefnisgerð á öllum skólastigum. Við ætlum að fara í að skilgreina saman fjar- og dreifnám með skipulegum hætti og vinna markvisst að því að gera starf kennara og starfsumhverfi aðlaðandi og eftirsóknarvert sem ég tel skipta mjög miklu máli í öllu saman til að fá gott og hæft fólk inn í skólana.

Hagsmunirnir eru mjög miklir. Ég tek heils hugar undir það sem menn hafa verið að tala um hér í þingsalnum. Það skiptir mjög miklu fyrir þróun og eflingu menntakerfisins að við vinnum saman, kennarasamfélagið og menntamálaráðuneytið, og ég hvet stjórnarandstöðuna til að taka höndum saman við okkur, fara í þessa vinnu og samþykkja í vor frumvarp sem snertir þessar breytingar.