132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:47]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar. Ég vildi spyrja út í 12. gr. frumvarpsins en þar er fjallað um stjórnun skóla. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að m.a. væri um að ræða kröfu skólasamfélagsins. Ég hef reyndar á tilfinningunni að ítarlegar athugasemdir muni koma við þá breytingu. Löggjafinn hefur hingað til tryggt lágmarksstjórnun í grunnskólum landsins. Ég hef ákveðnar áhyggjur af stöðu mála verði þetta fellt út. Ég bið þess vegna hæstv. ráðherra um örlítið ítarlegri rökstuðning.