132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:48]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur þótt nokkuð sérstakt miðað við almenna skipan stofnana en það er ekki lengur algengt að stjórnskipulag stofnana sé njörvað niður í lögum. En það gildir enn um grunnskólann og um skólastofnanir. Menn hafa í ljósi krafna um sveigjanleika í skólastarfi, aukna skilvirkni o.s.frv., bent á að það sé rétt, ekki síst með tilliti til fámennari skóla, t.d. með 12–25 nemendum, að mikilvægt sé að losa um þessa skyldu sem er kveðið á um í lögum, varðandi aðstoðarskólastjórann. Ég ítreka að með þessu er ekki verið að afnema aðstoðarskólastjóra heldur að veita þeim sem reka skólana, sveitarfélögunum og skólastjórum, tækifæri til að meta aðstöðuna í hverju tilfelli.

Ég hvet að sjálfsögðu hv. þingmenn til að fara gaumgæfilega þetta atriði í menntamálanefnd og ég mun taka þeim ábendingum sem þaðan koma og lúta þeim breytingum, verði þær nokkrar á þessu ákvæði.