132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:50]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er býsna erfitt að átta sig á tilgangnum með framlagningu þessa frumvarps. Ég held að hæstv. ráðherra verði að útlista það örlítið fyrir okkur áður en umræðan fer almennilega í gang.

Í fyrsta lagi virðist endurskoðunin á grunnskólalögunum afar takmörkuð enda boðaði hæstv. ráðherra að á næstunni hæfist endurskoðun á lögunum. Í hádeginu í dag var undirritað plagg þar sem segir m.a. að endurskoðun laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla eigi að fara fram vorið 2006.

Hér er boðuð aukin miðstýring, sem mér þykir afar sérkennilegt að hæstv. ráðherra leggi svo mikla áherslu á og einnig er gengið á sjálfsforræði sveitarfélaganna. Ég spyr því, herra forseti: Hvað liggur á? Hvað í frumvarpinu kallar á að reyna að keyra þetta mál í gegn á vordögum, þegar ljóst er að fara á í enn meiri vinnu varðandi endurskoðun á grunnskólalögunum, sem er fyllilega tímabært? Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra.