132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:51]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni ætlaði ég í heildarendurskoðun á grunnskólalöggjöfinni fyrir rúmu ári. Menn muna hvernig þá var umhorfs í samfélaginu. Þá var grunnskólakennaraverkfall og ekki flötur á að fara í heildarendurskoðun. Engu að síður eru ákveðnar breytingar sem ég tel mikilvægt að fá í gegn. Það er langt í að endurskoðun laganna ljúki og vinnan er ekki enn þá hafin en er á næstu grösum.

Eins og hv. þingmaður, hinn menntaði Einar Már Sigurðarson, veit þá taka slíkar grundvallarendurskoðanir langan tíma. Það eru ákveðnar meiri háttar breytingar fólgnar í frumvarpinu sem snerta rétt foreldra og nemenda en síðan vaknar þessi pólitíska spurning, sem snertir á engan hátt miðstýringu heldur fyrst og fremst að fjölga tækifærum, valfrelsi og auka fjölbreytni í skólasamfélaginu. Það snýst um pólitíska afstöðu sem Samfylkingin og þingmenn hennar verða að þora að gera upp við sig. Við vitum hvar vinstri grænir hafa staðið í þessu máli. Stefna þeirra er ávallt skýr og maður veit nokkurn veginn að hverju maður gengur. (Forseti hringir.) En ég er spennt að fylgjast með því hvort við fáum enn eina U-beygjuna, herra forseti, í þessu máli.