132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnast þetta mjög alvarlegar ásakanir því að ég tel hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur gefa í skyn að nemendur til að mynda í Ísaksskóla og Landakotsskóla séu börn sérstaklega efnaðra foreldra. Sú er ekki raunin og þessir skólar hafa síður en svo stuðlað að stéttaskiptingu hér á landi, síður en svo. Þeir hafa miklu frekar aukið þau tækifæri sem skipta okkur svo miklu máli. (Gripið fram í.)

Ég vil undirstrika það að ef sveitarfélögin segja já geta þau líka samið um þetta, þetta er bara lágmarkið. Sveitarfélögin geta farið þá góðu leið sem t.d. Garðabær gerði á sínum tíma varðandi Barnaskóla Hjallastefnunnar sem er frábær skóli. Þar sögðu menn: Allt í lagi við semjum við Barnaskóla Hjallastefnunnar til þess að auka möguleika íbúanna í bænum en við borgum skólanum 100% miðað við þau framlög sem Flataskóli fær gegn því að ekki verði tekin upp skólagjöld. (Forseti hringir.) Ég tel þetta mjög athyglisverða leið sem er sveitarfélögunum (Forseti hringir.) vel fær þrátt fyrir þetta frumvarp.