132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:29]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að fá að vitna sérstaklega í umsögn Árna Þórs Sigurðssonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem þau lögðu fram með eftirfarandi bókun.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í umsögninni er fjallað um eitt djúpstæðasta ágreiningsefni stjórnmálamanna í skólamálum með þeim hætti að engin pólitísk sátt getur orðið um það á vettvangi stjórnar sambandsins.“

Þau viðurkenna að þetta er hápólitískt mál sem menn verða að þora að taka afstöðu til. Ekki bara í salnum í borgarstjórninni heldur líka hér.

Síðan segja þau jafnframt, með leyfi forseta:

„Þessu sjónarmiði sem tengist frumvarpinu erum við algerlega andvíg enda endurspeglar það fyrst og fremst viðhorf þeirra sem leggja mjög mikla áherslu á einkarekna grunnskóla.“

Við komum alltaf að þessu sama, frú forseti og hv. þingmaður, þ.e. að þora að taka afstöðu með því að tryggja réttarstöðu einkarekinna skóla innan kerfisins. Við megum ekki láta hið pólitíska umhverfi ráða því hvort börnin okkar fái fjárframlög með skólavist sinni í einkareknum skólum eða ekki. Á hið pólitíska umhverfi að ráða því hvort börnin okkar fái fjárframlög eftir því í hvaða skóla þau ganga í sveitarfélaginu? Ég segi nei. Ég tel að það eigi að fylgja fjárframlögum, það skuli vera tryggt í lögum.

Sérstaklega vil ég benda hv. þingmanni á að einkaskólarnir — af því að hann talaði í ræðu sinni líka um sérkennsluna og sérþarfirnar — hafa, sérstaklega í Reykjavík, tekið þá nemendur sem ekki hafa þrifist innan almenna skólakerfisins. Þá hefur þetta verið kærkominn valkostur fyrir foreldra barna sem hafa ekki þrifist innan almenna skólakerfisins og þessa réttarstöðu vilja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki tryggja.